„Við, líkt og aðrar þjóðir, einfaldlega vitum ekki hvað er framundan. Þetta er óvenjuleg staða vegna þessarar miklu óvissu sem henni fylgir og afskaplega erfitt að segja til um hvað næstu vikur og mánuðir munu bera í skauti sér,“ sagði Þorsteinn Víglundsson þingmaður Viðreisnar í umræðum um aðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19 faraldursins á Alþingi í dag.
Þingmaðurinn brýndi ríkisstjórnina til dáða í ræðu sinni og kallaði eftir auknum skýrleika þaðan hvað aðgerðir varðar. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, sem flutti þinginu munnlega skýrslu um aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum, kynnti engar nýjar aðgerðir til viðbótar við það sem kynnt var á blaðamannafundi ríkisstjórnarinar á þriðjudaginn.
Þorsteinn sagði vandann í raun vera tvíþættan nú, þar sem efnahagsniðursveifla hefði hafist fyrir rúmu ári síðan og ríkisstjórnin hefði ekki mætt henni nægilegri festu af ríkisstjórninni. Ferðaþjónustan hefði verið í hörðu árferði í meira en eitt ár, sem gerði höggið nú þyngra en ella.
„Þess vegna þurfa viðbrögðin núna að vera skýr, þau þurfa að vera afgerandi, þau þurfa að vera fumlaus,“ sagði Þorsteinn og bætti við að þessa skýrleika saknaði hann enn í yfirlýsingum stjórnvalda um aðgerðir vegna veirunna.
Hann sagði að það hefði verið hughreystandi að heyra forsætisráðherra og fjármálaráðherra segja í þinginu í dag að ríkisstjórnin myndi gera „allt sem þyrfti“ til að bregðast við afleiðingum COVID-19 á hagkerfið, en það væri ekki nóg.
Þingmaðurinn sagði blaðamannafund ríkisstjórnarinnar á þriðjudag hafa verið „innistæðulítinn“ um aðgerðir vegna veirunnar og bar hann saman við skýrar aðgerðir sem fjármálaráðherra Bretlands kynnti þinginu í Westminster í gær.
Þorsteinn sagði að ef ríkisstjórnin kynnti ekki skýrari aðgerðir á næstu dögum væri hætta á að viðbrögð fyrirtækja við efnahagshögginu yrðu öfgafull, sem myndi enn dýpka niðursveifluna.
Lagði hann meðal annars til að ríkið gripi til aðgerða til að hjálpa fyrirtækjum að fækka fólki og að tímabundin úrræði yrðu virkjuð til að færa fólk yfir á atvinnuleysisbætur, svo fyrirtækin yrðu enn á sínum stað þegar veirufaraldurinn og efnahagsniðursveiflan yrði liðin hjá.