Mynd: Bára Huld Beck

Forsætisráðherra segir allan þingheim þurfa að sýna forystu

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði að íslenskt samfélag þyrfti að standa saman við þær aðstæður sem eru uppi í ræðu á þingi í dag. „ Við vitum að þetta verður erfitt, en staðan er góð, innviðirnir eru traustir og við höfum alla möguleika á því að mæta þessari áskorun af sóma.“

„Ég vil segja það að markviss og traust viðbrögð skipta sköpum í aðstæðum eins og við glímum nú við. Aðgerðir stjórnvalda munu miða við að styðja við atvinnulífið og fólkið í landinu, enda er það tengt órjúfanlegum böndum.“ 

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Alþingi í dag þegar hún gaf munnlega skýrslu um aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum vegna veirufaraldursins sem nú geisar. 

Katrín kynnti engar nýjar aðgerðir en fór yfir það sem þegar verið verið lagt á borðið og sagði að mestu máli skipti að aðgerðir stjórnvalda verði markvissar, réttlátar og skynsamar. „Gerum okkur grein fyrir því, við sem hér sitjum, að íslenskt samfélag stendur frammi fyrir mikilli áskorun. Og það er áskorun sem er mikilvægt að við mætum í sameiningu og leggjum öll okkar að mörkum til að sigrast á henni. Þar er hlutverk okkar allra mikilvægt, bæði ríkisstjórnar en ekki síður þingsins. Við þurfum öll að sýna forystu til þess að við getum tekist á við þessa áskorun með sómasamlegum hætti.“

Í niðurlagi ræðu sinnar sagði forsætisráðherra að stjórnvöld myndu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að yfirstandandi hremmingar verði tímabundnar og að íslenskt samfélag muni standa sterkara eftir en áður. „Við þurfum sem samfélag að standa saman við þessar aðstæður og það skiptir máli að við öll sendum þau skýru skilaboð út í samfélagið. Ef okkur ber gæfa til þess þá hef ég ekki áhyggjur af því að okkur muni lánast að gera þetta eins vel og við getum. Við vitum að þetta verður erfitt, en staðan er góð, innviðirnir eru traustir og við höfum alla möguleika á því að mæta þessari áskorun af sóma.“

Ferðabannið „áfall“

Í ræðunni fór Katrín yfir það að hún telur íslensk stjórnvöld hafa verið vel undirbúin undir þann veirufaraldur sem nú geisar vegna veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Hér hefði verið lögð áhersla á að hlífa veiku fólki og lágmarka álag á heilbrigðiskerfið. Sagði hún þær aðgerðir sem þegar hefði verið gripið til vera til mikillar fyrirmyndar og að ánægjulegt væri hversu alvarlega almenningur hefði almennt tekið stöðuna. 

Stjórnvöld muni hins vegar ekki hika viðað beita öllum þeim úrræðum sem þau eigi tiltæk, hvort sem það sé á sviði heilbrigðis- eða efnahagsmála, við að koma landinu í gegnum þá stöðu sem sé uppi. Sú staða sé þó tímabundin, en ekki varanlegt ástand. 

Katrín fór yfir þá ákvörðun Bandaríkjaforseta að setja ferðabann á Ísland, þær afleiðingar sem það hefur þegar haft á íslenskan hlutabréfamarkað og þær sem gætu orðið til lengri tíma, sérstaklega á ferðaþjónustu. Hún sagði að ákvörðunin væri áfall og að íslensk stjórnvöld væru búin að gera þeim bandarísku grein fyrir afstöðu sinni til hennar. 

Faraldurinn væri að skekja öll opin hagkerfi í heiminum og Ísland væri þar engin undantekning. Neikvæð áhrif væru þegar komin fram í formi minnkandi eftirspurnar sem myndi leiða til minni tekna. Þá gætu falist vandkvæði í því að ekki myndu fást aðföng í mikilvæga framleiðslu. 

Fór yfir fyrri aðgerðir en kynnti engar nýjar

Ljóst sé að þörf sé á viðspyrnu og að forsendur fjármálaáætlunar séu þegar brostnar. Ný slík verður lögð fram í maí, eða eftir tvo mánuði. Katrín sagði að það þyrfti að horfa til lengri og skemmri tíma þegar áhrif af stöðunni væru metin.

Hún fór svo yfir þær aðgerðir sem kynntar voru á þriðjudag á blaðamannafundi, sem voru sjö talsins.  Í þeim pakka voru meðal annars aðgerðir sem þegar höfðu verið kynntar, eins og tilfærsla á innstæðum Íbúðalánasjóðs úr Seðlabanka Íslands og yfir til viðskiptabanka til að auka laust fé innan þeirra.

Þá hafði áður verið greint frá því að aukin kraftur yrði settur í fjárfestingar hins opinbera og engar nýjar slíkar tilgreindar á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar. Þar var hins vegar greint frá því að fyrirtækjum sem lenda í tíma­bundnum rekstr­ar­örð­ug­leik­um ­vegna tekju­falls verði veitt svig­rúm, t.d. með lengri fresti til að standa skil á sköttum og opin­berum gjöld­um og að gistináttaskattur verði felldur niður. Hann hefur skilað rúmlega einum milljarði króna í tekjum á undanförnum árum en fyrir liggur að gistináttaskatturinn, sem er 300 krónur á hverja selda gistinótt, mun hvort eð er skila mun minna í tekjur fyrir ríkissjóð ef ferðamenn eru ekki að koma til landsins. 

Þá greindi ríkisstjórnin frá því að hún ætlaði í mark­aðsátak erlendis „þeg­ar að­stæður skap­ast til þess að kynna Ísland sem áfanga­stað, auk átaks til að hvetja til ferða­laga Íslend­inga inn­an­lands.“

Virkt samtal um hvernig bankar eigi að taka á stöðu fyrirtækja sem geta ekki staðið við greiðslur af lánum né almennar rekstrargreiðslur, eins og launagreiðslur, hefur verið í gangi en engin niðurstaða kynnt um hvernig þeim málum verði háttað að öðru leyti en að til standi að reyna að fleyta „lífvænlegum fyrirtækjum“ í gegnum þann kúf sem framundan er. 

Katrín ræddi líka í ræðu sinni um að áhrif af þeim aðgerðum sem ríkið skuldbatt sig til við gerð lífskjarasamninganna væru nú að koma til framkvæmda á hárréttum tímapunkti og benti á að fyrir lægi frumvarp sem tryggði að laun allra sem sitja í sóttkví verði greidd. Enginn þurfi því að óttast um afkomu sína á meðan að viðkomandi er í sóttkví og sagði að það væru fjarri því allar þjóðir að beita sóttkvíarúrræðinu til að hindra útbreiðslu veirunnar. Við gætum hins vegar gert það vegna þeirrar yfirsýnar sem væri hægt að hafa hérlendis, þar sem alþjóðaflugvöllurinn væri einungis einn og þjóðin fámenn.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar