Ríkisstjórnin mun funda í hádeginu í dag vegna þess ástands sem upp er komið vegna COVID-19 og aðgerða bandarískra stjórnvalda. Í kjölfarið mun forsætisráðherra hitta formenn flokka í stjórnarandstöðu til að fara yfir stöðuna.
Þetta kom fram í máli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Á morgun mun ríkisstjórnin eiga fund með aðilum vinnumarkaðarins en ætlunin var að hafa þann fund í dag – en vegna tíðinda næturinnar er varða aðgerðir Bandaríkjaforseta þá var ákveðið að fresta þeim fundi til morguns.
„Það er ljóst að við stöndum frammi fyrir þrengingum. Þær verða tímabundnar og mun ríkisstjórnin gera það sem þarf til þess að við munum koma standandi niður úr þessum hremmingum,“ sagði forsætisráðherrann á Alþingi.
Hún sagði enn fremur að þjóðarbúið stæði vel og að staðan væri allt önnur en árið 2008 þegar Íslendingar stóðu frammi fyrir þeim þrengingum sem landsmenn lentu í þá. Þeir væru með öflugan gjaldeyrisvaraforða, lágt skuldahlutfall, jákvæðan viðskiptajöfnuð og miklu minni skuldsetningu heimila og atvinnulífs.
Fyrirtækin í landinu eru ekkert annað en fólkið sem þar vinnur
„Staðan er góð og ríkisstjórnin kynnti fyrstu aðgerðir nú í vikunni til að styðja við fyrirtækin í landinu og það skiptir að sjálfsögðu máli fyrir fólkið í landinu. Því fyrirtækin í landinu eru ekkert annað en fólkið sem þar vinnur,“ sagði hún.
Katrín telur að þannig hafi þessi ríkisstjórn ekki veikt jöfnunartæki í landinu heldur hafi aðgerðir hennar skilað auknum jöfnuði, hvort sem litið sé til skattkerfisbreytinga eða stóraukinna fjármuna inn í heilbrigðiskerfið – sem skipti svo sannarlega máli núna þegar þessi faraldur geisar.
Þörf á frekari aðgerðum
„Þessi ríkisstjórn hefur svo sannarlega verið að styrkja velferðarkerfið og grunnstoðir þess en staðan er þannig að við munum þurfa á þeim að halda og þær aðgerðir sem við kynntum á þriðjudag voru eingöngu þær fyrstu.
Við munum þurfa frekari aðgerðir í vinnumarkaðsmálum, félagslegum stöðugleika og að sjálfsögðu fjárfestingu til að tryggja það að við komum standandi niður en það munum við gera,“ sagði Katrín.