Ferðabann milli Evrópu og Bandaríkjanna sem Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti um í nótt hefur vakið bæði reiði og ringulreið beggja vegna Atlantshafsins. Bannið nær til allra Schengen-ríkjanna, þar með talið Íslands, og mun standa í einn mánuð. Bannið mun hafa víðtæk áhrif á efnahag og samfélag margra ríkja, m.a. Íslands.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gaf út yfirlýsingu í morgun þar sem viðbrögð Bandaríkjaforseta voru fordæmd. Á sama tíma eru þó mörg Evrópulönd að grípa til harðra aðgerða, meðal annars ferðatakmarkana. Danmörk og Ítalía hafa gengið hvað lengst.
„Kórónuveiran er alþjóðleg vá sem takmarkast ekki við neina heimsálfu. Hún þarfnast samvinnu í stað einhliða aðgerða,“ sagði í yfirlýsingu framkvæmdastjórnarinnar. „Evrópusambandið er ósátt við þá staðreynd að ákvörðun Bandaríkjanna um að setja á ferðabann hafi verið tekin einhliða og án samráðs.“
Ferðabannið nær til allra Schengen-landanna og virðist ekki taka tillit til fjölda smita í einstökum löndum. Þannig eru til dæmis Bretland og Írland undanþegin banninu.
Tugþúsundir Bandaríkjamanna sem staddir eru í Evrópu klóruðu sér í höfðinu er þær vöknuðu í morgun og sáu fréttir um ferðabannið. Margt er enn á huldu um hvernig takmarkanirnar verða útfærðar og óttast fólk að flugferðir verði nú felldar niður í stórum stíl. Staða flugfélaga, hótela og fleiri ferðaþjónustufyrirtækja er einnig óljós en greinin hafði þegar orðið fyrir miklum skakkaföllum síðustu daga vegna ferðatakmarkana innan Evrópu.
En Bandaríkjamenn eru langt í frá þeir einu sem vöknuðu undrandi og ringlaðir í morgun. Stjórnvöld í sífellt fleiri ríkjum hafa gripið til hertra aðgerða til að reyna að hefta og hægja á útbreiðslu nýju kórónuveirunnar.
- Í dag hafa greinst smit hjá yfir 124 þúsund manns víða um heim. Dauðsföll af völdum veirusýkingarinnar eru komin yfir 4.600. Tæplega 81 þúsund hafa sýkst í Kína og þar í landi hafa tæplega 3.200 látist. Faraldurinn virðist hins vegar í rénun í landinu.
- Utan Kína hafa langflest dauðsföllin verið á Ítalíu eða 827. Þar hafa yfir 12.400 manns sýkst og gjörgæsludeildir eru yfirfullar af lífshættulega veiku fólki. Í Íran hafa meira en 9.000 smit verið greind og yfir 350 hafa dáið. Í Suður-Kóreu, þar sem faraldurinn breiddist út snemma á árinu hafa 66 látist en nýjum smitum hefur fækkað hratt síðustu daga.
- Í Frakklandi hefur verið tilkynnt um 48 dauðsföll af völdum COVID-19 og yfir 80 á Spáni.
- Fyrstu dauðsföllin af völdum veirusýkingarinnar hafa verið tilkynnt í Austurríki, Grikklandi, Fílabeinsströndinni og Alsír síðustu klukkustundir. Í gær urðu fyrstu dauðsföllin á Írlandi, Albaníu, Belgíu, Svíþjóð og Búlgaríu svo dæmi séu tekin.
- Staðfest tilfelli veirunnar eru fá enn sem komið er í Afríku en heilbrigðisyfirvöld í löndum álfunnar búast við faraldri og undirbúa sig samkvæmt því.
- Stjórnvöld á Indlandi hafa hætt útgáfu vegabréfsáritana til ferðamanna. Þar hafa 73 tilfelli veirunnar verið staðfest en mjög líklega er um mikla vangreiningu að ræða.
- Yfirvöld á Ítalíu hafa hert mjög á aðgerðum sínum síðustu klukkustundir. Þar verður öllum verslunum fyrir utan apótek og matvörubúðir lokað. Ferðatakmarkanir og samkomubönn eru einnig í gildi.
- Ríkisstjórn Spánar hefur öll verið skimuð fyrir veirunni og að minnsta kosti einn ráðherra er sýktur. Öllum fótboltaleikjum í yfirstandandi umferð í það minnsta hefur verið frestað. Lið Real Madrid er nú allt í sóttkví.
- Að minnsta kosti 22 ríki hafa gripið til þess ráðs að loka skólum, m.a. Danmörk, Írland, Kasakstan og Malta.
- Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hefur lýst því yfir að COVID-19 sé heimsfaraldur.
- Hlutabréfamarkaðir hafa ekki farið varhluta af vendingum síðustu klukkustunda og FTSE-vísitalan lækkaði um 5% í morgun og hefur ekki verið lægri síðan 2012. Hér á landi má m.a. sjá áhrifin í verði hlutabréfa í Icelandair.
- Leikjum í NBA-deildinni í körfubolta hefur verið frestað um óákveðinn tíma eftir að leikmaður Utah Jazz greindist með COVID-19 í gær.
- Starfsfólk Twitter um allan heim skal nú um óákveðin tíma vinna frá heimilum sínum og svipaða sögu er að segja um starfsfólk fjölmargra annarra stórra og alþjóðlegra fyrirtækja, s.s. Microsoft, Facebook og Amazon.
Faraldurinn virðist í rénun í Kína og Suður-Kóreu sem gefur ákveðnar vísbendingar um hvað koma skal í Evrópu og víðar. Aðgerðir stjórnvalda, meðal annars hér á landi, miða fyrst og fremst að því að hægja á útbreiðslunni svo koma megi í veg fyrir ofurálag á heilbrigðiskerfið og ótímabær dauðsföll af þeim sökum.