Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir í stöðuuppfærslu á Facebook í dag það vera ekkert mál fyrir hvaða pólitíkus sem er að berja sér á brjóst og heimta að „meira sé gert“ til að hindra útbreiðslu COVID-19 veirunnar.
„En að hindra útbreiðslu COVID-19 veirunnar er vísindalegt viðfangsefni, ekki pólitískt. Stjórnmálamenn vinna við að gaspra, en fyrst eiga þeir að hlusta,“ skrifar hann.
Kjarninn greindi frá því í morgun að sóttvarnalæknir hefði lagt til við heilbrigðisráðherra að samkomubann yrði sett á frá miðnætti 15. mars sem gilti í fjórar vikur. Viðburðir þar sem fleiri en hundrað manns koma saman verða óheimilir samkvæmt tillögunni. Það mun eiga við stóra vinnustaði, íþróttaviðburði, verslanir og kvikmyndahús svo dæmi séu tekin. Ekki verður þó löggæsla við stórmarkaði til að gæta þess að innan við hundrað fari þangað inn í einu heldur er almenningur hvattur til að framfylgja takmörkununum.
Ekki rugla saman tilfinningaþrungnum áhyggjum stjórnmálamanna við sérfræðiþekkingu
Helgi Hrafn segir að ákvarðanir um hverju skuli loka eða hvernig samkomubönnum skuli háttað eigi ekki heima í einhverri kosningaloforðasamkeppni um hver vilji „gera meira“ – því allir vilji gera það sem best er að gera. Það sé enginn á mála hjá þessari veiru. Hann segir að við séum öll á móti henni.
„Við höfum nóg að rífast um þegar kemur að efnahagslegu viðbrögðunum og þar er nóg af pólitík – og einnig gríðarlega margir og stórir óvissuþættir. En þegar kemur að því flókna, vandasama, erfiða en umfram allt vísindalega viðfangsefni að sporna við útbreiðslu veirunnar, ekki rugla saman tilfinningaþrungnum áhyggjum stjórnmálamanna við sérfræðiþekkingu á viðfangsefninu,“ skrifar hann að lokum.
Það er ekkert mál fyrir hvaða pólitíkus sem er að berja sér á brjóst og heimta að „meira sé gert“ til að hindra...
Posted by Helgi Hrafn Gunnarsson on Friday, March 13, 2020