Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, lýsti rétt í þessu yfir neyðarástandi í landinu. Sú aðgerð, sem er hugsuð sem örþrifaráð sem hægt er að grípa til vegna náttúrhamfara, farsótta eða stríða, veitir aðgang að um 50 milljörðum Bandaríkjadala til að berjast við útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum.
Eins og er hafa yfir 1.800 tilfelli greinst í Bandaríkjunum, alls í 46 ríkjum, og 41 hafa látist. Bandaríkjastjórn hefur legið undir ámæli fyrir að bregðast seint við ástandinu og Trump gerði ítrekað lítið úr stöðunni á síðustu vikum. Þetta er í fyrsta sinn sem Trump talar um veiruna og útbreiðslu hennar sem vandamál innan Bandarikjanna, en ekki einungis vágest sem þurfi að halda utan landamæra landsins.
Á blaðamannafundi sem Trump boðaði til í dag og hófst rúmlega hálf átta að íslenskum tíma fór hann yfir allar þær aðgerðir sem hann og ríkisstjórn hans hefðu gripið til og sagði að þær hefðu bjargað fjölmörgum mannslífum. Hann neitaði að taka ábyrgð á því að illa hefur gengið að hefja víðtækar prófanir á því hvort að Bandaríkjamenn væru sýktir af veirunni og sagði að ástæðan fyrir töfunum hefði verið kerfislegur galli. Hans fólk væri búið að endurhanna kerfið hratt og nú væru prófanir að komast í rétt horf.
Á fundinum sagði Bandaríkjaforseti að hann væri búinn að fyrirskipa öllum ríkjum landsins að setja í gang neyðaraðgerðir og veitti heilbrigðismálaráðherra landsins, Alex Azar, víðtækar heimildir til að gera læknum og spítölum kleift að bregðast hart við veirunni og afleiðingum hennar.
Trump sagði að ekkert ríkið væri betur í stakk búið til að takast á við útbreiðslu veirunnar og að ekkert ríki væri að gera meira til þess að hefta úbreiðsluna hennar. Auk þess væru Bandaríkin að hjálpa öðrum ríkjum í þeirra baráttu við faraldurinn.
Með Trump á blaðamannafundinum í dag voru meðal annars stjórnendur frá stórum bandarískum lyfjafyrirtækjum og stærstu dagvöruverslunum Bandaríkjanna, á borð við Wallmart og Target.
Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti aðfaranótt fimmtudags að ferðum frá Evrópulöndum utan Bretlands til Bandaríkjanna yrði aflýst í þrjátíu daga. Hann sagði Evrópusambandinu hafa mistekist að hefta útbreiðsluna. Yfirvöld í Bandaríkjunum hafi hins vegar brugðist hratt við og að tilfelli nýju kórónuveirunnar þar í landi væru fá miðað við í Evrópu. Aðgerðirnar væru „harðar en nauðsynlegar“.
Síðan þá hefur staðan versnað hratt í Bandaríkjunum og leitt til þess að neyðarástandi var lýst yfir í dag.
Trump var spurður af blaðamönnum hvort hann hefði verið prófaður svo að hægt væri að ganga úr skugga um að hann væri ekki sýktur af veirunni. Ástæðan er sú að fjölmiðlafulltrúi forseta Brasilíu, sem var viðstaddur fund hans með Trump á laugardag, hefur greinst með COVID-19. Trump svaraði spurningunni ekki beint en sagðist ekki hafa sýnt nein einkenni.