„Síðustu dagar hafa verið óvenjulegir og úrlausnarefnin óteljandi.“ Þetta segir Stefán Eiríksson útvarpsstjóri í stöðuuppfærslu á Facebook.
Þá bendir hann á að framundan séu enn óvenjulegri tímar með fordæmalausu samkomubanni og ýmsum öðrum mikilvægum ráðstöfunum. Þær ráðstafanir séu tímabærar og nauðsynlegar og muni tryggja að Íslendingar nái tökum á þeirri stöðu sem uppi er.
„Við hjá RÚV höfum verið að undirbúa okkur undir þessa stöðu síðustu daga og vikur í samstarfi við ýmsa aðila, bæði til þessa að tryggja órofna starfsemi RÚV á tímum sem þessum og skipuleggja og undirbúa einnig hvernig við getum enn bætt og styrkt okkar upplýsingamiðlun, fræðslu, skemmtun og afþreyingu,“ skrifar hann.
Hafa skýru hlutverki að gegna
Þá bendir Stefán á að þau á RÚV hafi mikilvægu og skýru hlutverki að gegna í almannavarnaástandi eins og nú ríkir. Það eigi við um miðlun frétta, upplýsinga og ekki síður afþreyingarefnis af ýmsu tagi. Hann telur að öllum þeim verkefnum sem þessu fylgja hafi starfsfólk RÚV sinnt af mikilli fagmennsku og elju undanfarnar vikur og mánuði.
„Margt er í undirbúningi sem þegar er byrjað að kynna í dag og áfram næstu daga. Við munum með fjölbreyttum hætti aðstoða skólabörn og fjölskyldur við að ramma inn daginn nú þegar skólahald verður takmarkað og gera allskyns fræðsluefni aðgengilegt, við erum að framleiða og setja í dreifingu á næstu dögum aðgengileg örmyndbönd með lykil-fræðsluatriðum sem tengjast stöðu mála, höfum fengið til liðs við okkur þýðendur til að þýða fréttir og upplýsingar yfir á pólsku til viðbótar við enskar þýðingar, munum sameina morgunútvarp rásar eitt og tvö frá og með mánudegi og sjónvarpa þeirri útsendingu sömuleiðis og erum með í vinnslu ítarlegan fréttaskýringaþátt um COVID-19 og ítarlegan upplýsingaþátt í kjölfar þess, allt í næstu viku,“ skrifar hann.
Huga að ýmsu sem snýr að leikfimi og hreyfingu
Að hans sögn eru þau á RÚV að skipuleggja ýmislegt í samstarfi við Þjóðleikhúsið og fleiri menningarstofnanir og auka við alla útsenda dagskrá, þar á meðal af vinsælu eldra efni. „Við erum einnig að huga að ýmsu sem snýr að leikfimi og hreyfingu, ekki síst þeirra sem nú komast ekki í hefðbundna sjúkraþjálfun eða leikfimi, og sömuleiðis með jóga, hugleiðslu og öðru því sem hjálpar við að byggja upp og viðhalda andlegum styrk.“
Útvarpsstjóri lýkur færslu sinni með því að segja að með samstarfi og samvinnu allra munum við komast vel í gegnum þessa „miklu áskorun sem við okkur blasir. Við gerum það einnig með hlýju og væntumþykju gagnvart hvert öðru, skulum vera duglega að dreifa hrósi og jákvæðum straumum út um allt. Ég hlakka mikið til að kynna nánar fyrir ykkur allt það sem RÚV mun leggja af mörkum í þessum efnum á næstu vikum og mánuðum.“
Kæru vinir. Síðustu dagar hafa verið óvenjulegir og úrlausnarefnin óteljandi. Við á RÚV höfum mikilvægu og skýru...
Posted by Stefán Eiríksson on Friday, March 13, 2020