Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, greindi frá því í dag að ferðabannið til Bandaríkjanna, sem tók gildi á miðnætti, myndi frá og með miðnætti á mánudag líka ná yfir Bretland og Írland. Ríkin tvö voru upphaflega undanskilin frá banninu þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi frá því í síðustu viku.
Á blaðamannafundi sem Trump og Pence héldu í dag kom fram að allir Bandaríkjamenn myndu geta látið skima fyrir veirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómnum án þess að greiða fyrir það. Stefnt er að því að setja upp skimunarstöðvar í stærstu dagvöruverslunarkeðjum Bandaríkjanna og víðar. Trump staðfesti á fundinum að hann hefði undirgengist prófanir til að kanna hvort hann væri með COVID-19 og að niðurstöðu væri að vænta á næstu tveimur sólarhringum. Ástæðan er sú að fjölmiðlafulltrúi forseta Brasilíu, sem var viðstaddur fund hans með Trump á laugardag fyrir viku, hefur greinst með COVID-19.
Eins og er hafa 2.488 greinst smitaðir í Bandaríkjunum og 51 látist vegna veirunnar.
Forsetinn sagði einnig í gær að til greina kæmi að endurskoða veru annarra ríkja sem eru sem stendur á listanum. Á meðal þeirra ríkja sem ferðabannið, sem tekur gildi á miðnætti, nær yfir er Ísland. Engin ákvörðun hefur enn sem komið er verið tekin um það.
Trump greindi frá því að ferðabannið yrði sett á aðfaranótt fimmtudags. Ferðabannið, sem á að standa yfir í 30 daga, virkar þannig að öllum íbúum landa sem tilheyra Schengen-svæðinu, þar á meðal Ísland og þorri Evrópu, verður meinað að koma til Bandaríkjanna á tímabilinu. Bandarískir ríkisborgarar og aðrir sem eru með fasta búsetu í Bandaríkjunum munu fá að ferðast ef þeir vilja en samkvæmt fréttatilkynningu sem birt var í kjölfar yfirlýsingar Trump um ferðabannið á vef heimavarnarráðuneytisins mun þeim bandarísku farþegum sem dvalið hafa á Schengen-svæðinu hleypt inn í landið í gegnum valda flugvelli þar sem sérstakar ráðstafanir verða gerðar til að skima fyrir smiti.