Erna Solberg forsætisráðherra Noregs og Jan Tore Sanner, fjármálaráðherra landsins, kynntu í kvöld pakka upp á að minnsta kosti 100 milljarða norskra króna, sem eru um 1.340 milljarðar íslenskra króna, sem notaður verður til að styðja við norsk fyrirtæki vegna áhrifa sem þau verða fyrir vegna útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum.
Áætlunin sem norska ríkisstjórnin kynnti er tvíþætt. Annars vegar verða fjármunirnir notaðir til að kaupa skuldabréf af stærri fyrirtækjum upp að samtals 50 milljörðum norskra króna.
Hin leiðin snýst um að norska ríkið ætlar að veita ábyrgðir fyrir lánum í bönkum fyrir lítil og millistór fyrirtæki svo þau geti fengið fyrirgreiðslu til að komast í gegnum það ástand sem nú er uppi. Með þessu ættu fyrirtækin að geta tryggt sér laust fé til að lifa af. Þessi leið nær til þeirra fyrirtækja sem bankar meta sem svo að séu arðbær til lengri tíma lítið, en að gætu jafnvel lent i gjaldþroti að óbreyttu vegna þeirra áhrifa sem útbreiðsla kórónuveirunnar og aðgerðir ríkja heims vegna hennar eru að hafa á allt efnahagskerfið.
Solberg sagði að ríkisstjórnin væri tilbúin að gera það sem til þyrfti og eyða eins miklum peningum og nauðsynlegt væri til að tryggja stöðu norska hagkerfisins, aðstoða atvinnulífið og tryggja störf.
Þegar hafði verið greint frá því að norsk fyrirtæki gætu frestað greiðslu skatta og gjalda til 15. maí.
Mun lengra gengið en það sem hefur verið kynnt hérlendis
Aðgerðir norsku ríkisstjórnarinnar ganga mun lengra en t.d. þær aðgerðir sem hafa verið kynntar hérlendis til að aðstoða atvinnulífið. Stærsta aðgerðin hér hefur falið í sér að veita frest á greiðslu helmings opinberra gjalda, sem eru á gjalddaga á morgun, fram í apríl. Þá samþykkti ríkisstjórnin á föstudagskvöld frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, sem felur í sér breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðarsjóð launa, vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði.
Í frumvarpinu felst að þegar atvinnuleysisbætur eru greiddar samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda koma föst laun launamanns ekki sjálfkrafa til skerðingar á fjárhæð atvinnuleysisbóta, enda hafi starfshlutfall verið lækkað hlutfallslega um 20 prósent hið minnsta og 50 prósent hið mesta. Heildargreiðslur til launafólks munu ekki geta numið hærri fjárhæð en 80 prósent af meðaltali heildarlauna launþega á síðustu þremur mánuðum fyrir minnkað starfshlutfall, og eigi meira en 650 þúsund krónum í heildina.
Á þriðjudag hafði íslenska ríkisstjórnin kynnt alls sjö aðgerðir sem ráðast ætti í til að takast á við aðstæðurnar. Ein þeirra var að fresta með einhverjum hætti greiðslu opinberra gjalda, en sú leið var ekki útfærð með neinum hætti á þeim blaðamannafundi, né í þeim tillögum sem birtar voru opinberlega í kjölfar hans. En hún leit síðan dagsins ljós eins og greint er frá hér að ofan.
Í þeim pakka voru líka aðgerðir sem þegar höfðu verið kynntar, eins og tilfærsla á innstæðum Íbúðalánasjóðs úr Seðlabanka Íslands og yfir til viðskiptabanka til að auka laust fé innan þeirra.
Þá hafði áður verið greint frá því að aukin kraftur yrði settur í fjárfestingar hins opinbera og engar nýjar slíkar tilgreindar á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar. Þar var hins vegar líka greint frá því að fyrirtækjum sem lenda í tímabundnum rekstrarörðugleikum vegna tekjufalls verði veitt svigrúm, t.d. með lengri fresti til að standa skil á sköttum og opinberum gjöldum og að gistináttaskattur verði felldur niður. Hann hefur skilað rúmlega einum milljarði króna í tekjum á undanförnum árum en fyrir liggur að gistináttaskatturinn, sem er 300 krónur á hverja selda gistinótt, mun hvort eð er skila mun minna í tekjur fyrir ríkissjóð ef ferðamenn eru ekki að koma til landsins.
Þá greindi ríkisstjórnin frá því að hún ætlaði í markaðsátak erlendis „þegar aðstæður skapast til þess að kynna Ísland sem áfangastað, auk átaks til að hvetja til ferðalaga Íslendinga innanlands.“
Hún ætlaði einnig að eiga „virkt samtal“ um hvernig bankar eigi að taka á stöðu fyrirtækja sem geta ekki staðið við greiðslur af lánum né almennar rekstrargreiðslur, eins og launagreiðslur, hefur verið í gangi en engin niðurstaða kynnt um hvernig þeim málum verði háttað að öðru leyti en að til standi að reyna að fleyta „lífvænlegum fyrirtækjum“ í gegnum þann kúf sem framundan er.