Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur mælst til þess að öll ríki ESB, sem og nágrannalönd sem standa utan ESB, banni öll „ónauðsynleg ferðalög“ til Evrópu og setji á 30 daga ferðabann sem nær í raun til alls heimsins. Einungis Evrópubúar fengju þá að ferðast til Evrópu, nema í undantekningartilfellum.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnarinnar, sagði á blaðamannafundi síðdegis í dag að því minni sem ferðalög væru, því betur væri hægt að halda útbreiðslu COVID-19 í skefjum.
Samkvæmt frétt New York Times um fyrirætlanirnar, sem voru kynntar af þeim von der Leyen og Charles Michel forseta leiðtogaráðs ESB í dag, standa vonir leiðtoga ESB til þess að hægt verði að sannfæra öll ríki ESB og helst öll Schengen-ríkin líka um að taka þátt í þessum aðgerðum, en í þeim myndi felast blátt bann við komum annarra en þegna Evrópusambandsríkja eða Schengen-ríkja til Evrópu, nema í undantekningartilfellum.
Tuttugu og tvö ríki ESB eru í Schengen-samstarfinu, auk Íslands, Noregs, Sviss og Liectenstein. Bretland og Írland eru ekki hluti af Schengen-svæðinu og ekki heldur Króatía, Búlgaría, Kýpur né Rúmenía.
Þegar hafa mörg ríki innan Schengen lokað landamærum og hefur spenna farið vaxandi á meðal aðildarríkjanna af þessum sökum. Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur þannig gagnrýnt ríki sem taka einhliða ákvarðanir um lokanir evrópskra landamæra, rétt eins og ESB hafði áður gagnrýnt einhliða ákvörðun Bandaríkjanna um að setja ferðabann á Schengen-ríki í síðustu viku.
Samkvæmt frétt Reuters gera ráðamenn ESB sér vonir um að þessi lokun ytri landamæra Evrópu verði til þess að Evrópuríki hætti að loka innri landamærum álfunnar, en þetta er haft eftir ónefndum embættismanni ESB.
Mun Ísland loka?
Íslensk stjórnvöld hafa til þessa sagt að ekki komi til greina að loka landamærum Íslands til þess að reyna að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar, enda hafi okkar færustu sérfræðingar sagt að slíkar aðgerðir skiluðu litlu í þeirri baráttu.
Utanríkisráðherra kom sérstaklega á framfæri mótmælum til yfirvalda í Bandaríkjunum eftir að ríkisstjórn Trump tilkynnti um einhliða ferðabann sitt í síðustu viku.
Kjarninn hefur sent Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra fyrirspurn um hvort sú afstaða muni mögulega breytast, í ljósi þessara nýjustu vendinga.
Bein ríkisaðstoð verður leyfð tímabundið
Hér að neðan má sjá ávarp von der Leyen um þær aðgerðir sem framkvæmdastjórnin leggur til, en auk ferðatakmarkana fjallar hún einnig um leiðir til þess að halda flæði nauðsynjavara og annars varnings um Evrópu í gangi og áætlanir um að afnema, tímabundið, hömlur á ríkisaðstoð við fyrirtæki.The @EU_Commission presents guidelines on border measures & proposes:
— Ursula von der Leyen (@vonderleyen) March 16, 2020
1⃣Green lanes/fast lanes giving priority to essential transport to keep the mobility sector going & ensure economic continuity
2⃣Temporary restriction on non-essential travel to the EU (30 days) pic.twitter.com/9bda9MntF0