Norska lágfargjaldarflugfélagið Norwegian hefur aflýst 85 prósent allra fyrirhugaðra flugferða sinna og störf 7.300 starfsmanna fyrirtækisins eru í hættu. Þetta kom fram í tilkynningu frá Jacob Schram, forstjóra Norwegian, sem hann sendi frá sér í dag. Dagens Næringsliv greinir frá.
Schram sagði í tilkynningunni að um tímabundnar aðgerðir væri að ræða og þegar að heimurinn yrði aftur eðlilegur þá væri það stefna hans að ráða starfsmennina sem nú missa vinnuna aftur. Hann sagði enn fremur að það væri afar jákvætt að norsk stjórnvöld hefðu tilkynnt að þau ætluðu að gera allt sem til þyrfti til að styðja við norskan flugiðnað svo að mikilvægir innvirðir héldust og tug þúsundir starfa myndu ekki tapast.
Í gær var greint frá því að tíu þúsund starfsmenn flugfélagsins SAS yrðu sendir í ótímabundið leyfi. Rickard Gustafson, forstjóri fyrirtækisins, sagði á blaðamannafundi í gær að eftirspurn eftir flugi hefði meira og minna þurrkast út vegna kórónuveirunnar. Um er að ræða 90 prósent starfsmanna fyrirtækisins.
Áætlunin sem norska ríkisstjórnin kynnti var tvíþætt. Annars vegar verða fjármunirnir notaðir til að kaupa skuldabréf af stærri fyrirtækjum, eins og flugfélögum, upp að samtals 50 milljörðum norskra króna. Það mun styrkja lausafjárstöðu þeirra og getu til að komast í gegnum fyrirliggjandi skafl.
Hin leiðin snýst um að norska ríkið ætlar að veita ábyrgðir fyrir lánum í bönkum fyrir lítil og millistór fyrirtæki svo þau geti fengið fyrirgreiðslu til að komast í gegnum það ástand sem nú er uppi. Með þessu ættu fyrirtækin að geta tryggt sér laust fé til að lifa af.
Þessi leið nær til þeirra fyrirtækja sem bankar meta sem svo að séu arðbær til lengri tíma lítið, en að gætu jafnvel lent i gjaldþroti að óbreyttu vegna þeirra áhrifa sem útbreiðsla kórónuveirunnar og aðgerðir ríkja heims vegna hennar eru að hafa á allt efnahagskerfið.