Við megum ekki safnast saman í stórum hópum og í minni hópum eigum við að halda tveggja metra fjarlægð frá næsta manni. Kossaflens er alfarið út úr myndinni og engum skal heilsa með handabandi. Samkomubann og ýmsar aðrar takmarkanir eru í gildi á Íslandi á meðan faraldur nýju kórónuveirunnar gengur yfir.
Þetta eru ekki beint hlýlegar aðgerðir þó nauðsynlegar séu og því ákvað Kjarninn að biðja nokkra valinkunna Íslendinga að gefa landsmönnum góð ráð um hvernig hægt er að rækta líkama og sál á meðan þetta ástand varir.
Sá sem ríður á vaðið er bjartsýnismaðurinn Bragi Valdimar Skúlason. Hann bendir hér að neðan á fimm atriði sem hægt er að gera á tímum „faðmflótta“ eins og hann leggur til að enska hugtakið „social distancing“ verði þýtt á íslensku.
Skrúfa frá streyminu
Nú þegar íslenski tónlistarbransinn getur hvergi komið fram er mikilvægt að spila íslenska tónlist og streyma henni með löglegum leiðum, þannig að aurinn renni til listafólks. Helst kaupa hana eða styrkja upptökuverkefni á netinu.
Litaraða öppunum í símanum
Þetta er rétta tækifærið til að taka til í snjallsímanum, það er sérstaklega róandi að litaraða öllum öppunum á skjáinn sinn, pínu klikkað vissulega, en róandi. Stafrófsröð virkar líka.
Fréttaskömmtun
Hættið að endurhlaða allar fréttasíður, alltaf. Það er fínt að skammta sér bara hálftíma á dag til að taka við vondufréttaskammti dagsins. Annað er bara mannskemmandi. Hlustið frekar á hljóðbækur, tónlist eða spjallið saman — um eitthvað annað en bévítans pestina.
Spila
Nú er auðvitað sérlega góður tími til að setjast með fjölskyldunni og spila saman. Það er til endalaust af frábærum borðspilum. Svo er líka hægt að púsla eða grípa bara spilastokkinn. Spilabúðirnar senda pottþétt heim, en ég hugsa að Pandemic hljóti að fara að klárast úr hillunum.
Muna góða skapið
Ef þið þurfið endilega fréttir, farið þá reglulega inn á vefsvæðið Ástæður til að vera í góðu skapi, reasonstobecheerful.world. Það er síða sem listamaðurinn David Byrne stofnaði og hefur eingöngu að geyma góðar, upplífgandi fréttir frá öllum heimshornum. Mannbætandi dagsskammtur.