Ferðaskrifstofurnar VITA, Ferðaskrifstofa Íslands og Heimsferðir, í samstarfi við Icelandair, hafa skipulagt loftbrú frá Kanaríeyjum til Íslands, í gegnum Las Palmas og Tenerife, til að flýta för þeirra fjölmörgu Íslendinga sem staddir eru á eyjunum og áttu bókað flug heim fyrir páska.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair.
Alls hefur félagið sett upp 15 flug á næstu fjórum dögum til að sækja farþeganna, sem eru á milli tvö til þrjú þúsund. Stefnt er að því að allir farþegarnir verði komnir heim til Íslands á föstudag.
Búið er að setja útgöngubann á alla sem staddir eru á eyjunum og hótel eru að loka eitt af öðru.
Í tilkynningunni segir einnig að vegna fjölda fyrirspurna hafi Ferðaskrifstofan VITA hafið almenna sölu á flugferðum sem áætlaðar séu seinnipartinn á föstudag frá Tenerife og Kanarí. „Flugi verður bætt við ef mikil eftirspurn verður. Markmið Icelandair, ferðaskrifstofanna og Ferðamálastofu er að gefa öllum þeim sem ekki hafa þegar gert ráðstafanir til að komast aftur heim til Íslands tækifæri til þess á næstu dögum.“
Stjórnvöld biðluðu í gærkvöldi til Íslendinga erlendis, sem tvö af fjórum eftirfarandi atriðum eiga við, að íhuga heimferð til Íslands. Atriðin fjögur eru að vera yfir 60 ára gamall, vera með undirliggjandi sjúkdóm, vera fjarri vinum og fjölskyldu eða eiga ekki rétt á heilbrigðisþjónustu í landinu þar sem viðkomandi dvelst eða heilbrigðiskerfið þar annar ekki álaginu.
Hvatningunni var beint sérstaklega til Íslendinga sem annað hvort eru á ferðalagi erlendis eða dveljast þar tímabundið og eiga rétt á heilbrigðisþjónustu á Íslandi.
Þetta var önnur formlega hvatningin sem íslensk stjórnvöld senda til Íslendinga sem eru á ferðalagi erlendis til að flýta heimför. Sú fyrri, sem var almenn og ekki beint að ákveðnum hópum var send á laugardag. Í henni var haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra að víða ættu Íslendingar á hættu að verða innlyksa eða lenda í sóttkví við erfiðar aðstæður. „Ekki er víst hvaða aðgang og réttindi Íslendingar munu hafa að heilbrigðisþjónustu auk þess sem heilbrigðiskerfi í mörgum ríkjum anna ekki álagi[...]Í því ljósi höfum við ákveðið að ráða Íslendingum gegn ferðalögum erlendis og þeim sem eru á ferðalagi erlendis að íhuga að snúa heim fyrr en ella.“
Ljóst er að erfiðara verður með hverjum deginum að koma sér á milli landa, enda bæði þorri Evrópu og Bandaríkin búin að loka landamærum sínum og setja á ferðabann. Fyrir vikið hafa flest flugfélög dregið verulega úr framboði sínu og búist er við því að farþegaflug á svæðunum muni leggjast að stóru leyti af í nánustu framtíð.