Fjögurra manna fjölskylda í Mosfellsbæ hefur undanfarið verið í einangrun og sóttkví á heimili sínu. Nína Huld Leifsdóttir, nítján ára dóttir hjónanna Leifs Guðjónssonar og Helgu Kristjánsdóttur, smitaðist af nýju kórónuveirunni á æfingu hjá leikfélaginu í bænum fyrir rúmlega tveimur vikum. Félagi hennar í leikfélaginu reyndist hafa smitast af fólki sem hafði verið erlendis og í kjölfarið þurftu allir sem voru í nánum samskiptum við hann að fara í sýnatöku. Er í ljós kom að Nína hafði smitast fór hún þegar í stað í einangrun og aðrir í fjölskyldunni í sóttkví. Öll eru þau þó inni á sama heimilinu.
Leifur segir að svo vel vilji til að dóttirin geti verið í forstofuherbergi og hafi aðgang að sér klósetti. Aðstæðurnar séu því nokkuð góðar og eins og best verði á kosið til einangrunar í heimahúsi.
„Það eru svo sprittbrúsar og tuskur út um allt,“ segir Leifur. „Hún fær mat þarna fram og getur aðeins farið út á tröppur.“ Hann segir að þrátt fyrir allt líði öllum vel. Enginn hafi veikst og dóttir hans hafi allan tímann verið einkennalaus.
Frá upphafi fengu þau öll góðar og nákvæmlegar leiðbeiningar um hvernig skuli haga sér í sóttkví og einangrun. Allir í fjölskyldunni mæla sig tvisvar á dag og enginn hefur fengið hita. Sóttvarnateymi hefur svo samband við Nínu Huld annan hvern dag og athugar með líðan hennar.
En hvernig eru dagarnir hjá heilli fjölskyldu í sóttkví?
Leifur hlær dátt áður en hann svarar. „Það þarf „dass“ af þolinmæði og umburðarlyndi en þetta er að hafast.“
Fengu ketilbjöllur sendar heim
Fjölskyldunni hefur tekist að halda ágætri rútínu. Þau æfa öllu jafna í líkamsræktarstöðinni Kettlebells Iceland sem Vala Mörk og Guðjón Svansson reka skammt frá Reykjalundi í Mosfellsbæ. „Á öðrum degi í sóttkví fengum við ketilbjöllur sendar hingað heim og sett var af stað fjarprógramm. Mjög sniðugt. Þannig að við höfum getað hreyft okkur hér í stofunni. Sófinn hefur því ekki átt okkur alveg.“
Engin þörf reyndist á því að hamstra mat enda á fjölskyldan marga góða að sem hafa rétt fram hjálparhönd síðustu daga. Þannig hafa systur Leifs til dæmis keypt í matinn fyrir þau.
Samfélagið í Mosfellsbæ haldi einnig vel utan um þau.
„Svo unnum við í nágrannalottóinu, það býr kokkur hérna við hliðina á okkur,“ segir Leifur fullur þakklætis. „Hann hefur steikt kleinur og gert fiskibollur, er algjör meistari. Í kvöld fáum við steik frá honum, það verður síðasta kvöldmáltíðin,“ segir Leifur og hlær en sóttkvínni lýkur á morgun.
Tryggingar ná ekki yfir COVID-19
Leifur og Helga eru bæði sjálfstæðir atvinnurekendur. Helga á blómabúð og Leifur starfar hjá verktakafyrirtæki fjölskyldunnar. Eftir að sóttkví lýkur á morgun á hann ekki von á öðru en að snúa aftur til starfa. Dóttir hans verður þó áfram í einangrun. Ákvörðun um framhaldið verði tekin eftir sýnatöku í lok vikunnar.
Hann segir tímann verða að leiða það í ljós hver fjárhagsleg áhrif ástandsins vegna veirunnar verði á fjölskylduna. Hann hafi talið sig vera með „belti og axlabönd“ þegar komi að tryggingamálum og keypt bæði rekstrarstöðvunartryggingu og líf- og sjúkdómatryggingu. Tryggingafélagið segi hins vegar að rekstrarstöðvunartryggingin nái ekki til áfalla af völdum COVID-19. Sama gildi um sjúkdómatrygginguna. Leifur segist þó ekki ætla að hafa miklar áhyggjur af þessu í augnablikinu.
En er hann með einhver ráð til þeirra sem eru að hefja sóttkví í dag?
„Umburðarlyndi er nú það helsta,“ svarar hann. Einnig sé gott að halda góðri rútínu, vaka ekki fram eftir nóttu og snúa sólarhringnum við. Svo sé mikilvægt að finna sér eitthvað skemmtilegt til dundurs. Dóttir hans sé farin að prjóna og púsluspil hafi verið dregin fram á heimilinu. „Þetta er tækifæri til að kynnast aftur, svo þetta hefur nú sinn sjarma.“