Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva sem átti að fara fram í maí í Hollandi hefur verið aflýst vegna COVID-19 faraldursins. RÚV greinir frá.
Þá segir í tilkynningu frá EBU að vegna óvissuástandsins vegna útbreiðslu kórónuveirunnar og takmarkana ýmissa ríkisstjórna álfunnar á ferðafrelsi neyðist aðstandendur til þess að aflýsa keppninni.
Eins og alþjóð veit átti Daði og Gagnamagnið að flytja Think about things á stóra sviðinu í Rotterdam í Hollandi en keppnin átti að fara fram dagana 11. til 16. maí næstkomandi.
Í frétt RÚV um málið segir að forsvarsmenn keppninnar hafi sagt ákvörðunina tekna með heilsu listamanna, starfsfólks og aðdáenda í huga, auk ástandsins í Hollandi, Evrópu og heimsbyggðinni allri. Það virðist, samkvæmt RÚV, því svo sem að ekki hafi verið ákveðið að halda keppnina án áhorfenda eins og gert var í dönsku forkeppninni á dögunum. Ekkert komi fram um hvort keppnin verður haldin síðar og hvernig fyrirkomulagið muni þá vera.