Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hóf upplýsingafund peningastefnunefndar og fjármálastöðugleikanefndar vegna þeirra aðgerða sem nefndirnar kynntu í morgun, vaxtalækkun og afnáms sveiflujöfnunaraukans, á því að taka það skýrt fram það væri rangt, sem haldið hefði verið fram, að það hefðu verið mistök að hækka sveiflujöfnunaraukann á síðasta ári.
Fjármálakerfið hefur gagnrýnt ákvörðun fjármálastöðugleikanefndar um hækkun sveiflujöfnunaraukans, sem hækkaði síðast um 0,25 prósentustig í byrjun febrúar, upp í 2 prósent. Yngvi Örn Kristinsson hagfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja kallaði þannig eftir því í haust, í blaðagrein, að sú ákvörðun yrði endurskoðuð og sveiflujöfnunaraukinn jafnvel lækkaður.
„Rétti dagurinn til þess að gera við þakið er ekki þegar það rignir heldur þegar það er sól,“ sagði Ásgeir og sagði hækkun sveiflujöfnunaraukans hafa verið „hárrétta ákvörðun“ sem hefði nú leitt til þess að bankakerfið á Íslandi væri bólgið af eigið fé og vel undir það búið að takast á við þá makalausu stöðu sem nú er uppi í efnahagsmáum.
„Eiginfjárstaða bankanna er gríðarlega sterk, um 25 prósent, það þekkist ekki í löndunum í kringum okkur,“ sagði seðlabankastjóri, en hann tók það skýrt fram að algjört skilyrði fyrir afnámi sveiflujöfnunaraukans nú væri að bankarnir greiddu engan arð til eigenda sinna á þessu ári. Peningarnir þyrftu að vera áfram inni í bönkunum og Seðlabankinn myndi fylgjast vel með því.
Frekari tíðinda að vænta frá Seðlabankanum
Seðlabankastjóri sagði að ekki ætti að búast við því að það yrði tíðindalaust úr Seðlabankanum á næstunni, bankinn væri bara „rétt að byrja“ að takast á við stöðuna í efnahagslífinu.
„Það hefur átt sér gríðarleg þróun erlendis í því hvernig Seðlabankar hafa verið að beita sér og við erum ekki búin að gera neitt af þeim,“ sagði Ásgeir og bætti við að hinn nýji Seðlabanki, eftir sameiningu við Fjármálaeftirlitið, hefði ótal tól í sínu vopnabúri.
Hann var hins vegar ekki tilbúinn að sýna mikið frekar á spilin, er einn fundargesta í Seðlabankanum spurði hvaða mögulegu aðgerðir hefðu verið ræddar.
„Við erum að hugsa ýmsa hluti, ég held að það verði ekki tíðindalaust héðan, á næstu vikum og mánuðum, við skulum orða það þannig. En kannski ekkert sem ég vil deila með þér núna, samt sem áður,“ sagði Ásgeir, sem hafði þó fyrr á fundinum ekki útilokað að Seðlabankinn myndi kaupa ríkisskuldabréf, þó það hefði ekki sérstaklega komið til tals.
Varðandi kaup á ríkisskuldabréfum kom það fram í máli Þórarins G. Péturssonar, framkvæmdastjóra sviðs hagfræði og peningastefnu hjá bankanum, að erlendir seðlabankar sem hefðu gripið til þess ráðs væru í annarri stöðu en er uppi hér á Íslandi, þar sem meginvextir hér eru hærri. Þeir hefðu þannig ekki tök á því að grípa til vaxtalækkana, eins og Seðlabanki Íslands hefur nú gert tvær vikur í röð.
Ræddi bara gjaldeyrismálin við lífeyrissjóðina
Seðlabankastjóri fundaði með forsvarsmönnum Landssamtaka lífeyrissjóða í gær og í kjölfarið sendu samtökin út hvatningu til félagsmanna sinna, lífeyrissjóða landsins, um að halda að sér höndum hvað gjaldeyriskaup varðar næstu mánuði. Ásgeir var spurður um hvað þetta samtal hefði snúist um og sagði hann það einungis hafa snúið að gjaldeyrismarkaðnum.
„Að öðru leyti var ég ekki að segja þeim hvernig þeir ættu að fjárfesta peningunum, þó að það væri freistandi,“ sagði Ásgeir í léttum tóni, en spurningin laut að því hvort hann hefði einnig hvatt lífeyrissjóðina til þess að einbeita sér að fjárfestingum innanlands fremur en erlendis á næstunni. Svo er ekki.
Greint var frá því í Markaðinum í morgun að Seðlabankinn hefði selt gjaldeyri fyrir andvirði átta milljarða íslenskra króna í síðustu viku, þar af fyrir 3,6 milljarða á föstudaginn. Ásgeir ljóstraði því upp á fundinum að engin inngrip hefðu átt sér stað af hálfu Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði það sem af er þessari viku.
Ásgeir sagði aðspurður að það væri „mjög gott“ að vera með sjálfstæða mynt við núverandi aðstæður, við hefðum með því sveigjanleika til að bregðast við og einnig væri hollt að krónan væri að veikjast, en hún hefur veikst um 10 prósent frá áramótum.
„Veiking krónunnar er í sjálfu sér ekkert meiri en hjá öðrum smærri myntum, það er þannig ef það er óvissa eða óstöðugleiki á alþjóðavettvangi sækja fjárfestar í stærri myntirnar, dollarann, evruna, jenið,“ sagði seðlabankastjóri.
Tímabundið áfall
Ásgeir sagði mikilvægt að muna að útbreiðsla kórónuveirunnar væri tímabundið áfall og að efnahagsaðgerðirnar yrðu að einhverju leyti að byggjast á því. Ísland yrði áfram vinsælt ferðamannaland þegar fólk færi aftur að ferðast og þegar krísan væri yfirstaðin yrðum við fljótlega komin aftur í viðskiptajöfnuð.
Seðlabankastjóri var einnig spurður að því hvort hann væri með tilmæli til almennings, um það hvernig fólk ætti að haga sínum persónulegu fjármálum við þær aðstæður sem nú eru uppi.
„Þegar stórt er spurt. Ég held að það sé mjög mikilvægt að fólk haldi ró sinni. Þessi veiki er hættuleg af því það stafar hætta að lífi fólks og heilsu, en sem efnahagsáfall er þetta skammvinnt áfall sem við ættum að geta farið í gegnum,“ sagði Ásgeir og bætti við að fólk ætti ekki að þurfa að breyta öllum áætlunum um líf sitt, þó að það væri kannski erfitt fyrir hann að vera að gefa ráð um það.
Fram kom í máli nefndarmanna að viðbúið væri að samdráttur yrði á Íslandi í ár, en í nýjustu spá Seðlabankans var búist við um 1 prósent hagvexti. Næsta þjóðhagsspá bankans verður gefin út í maí.