Seðlabanki Íslands seldi gjaldeyri fyrir um átta milljarða króna í síðustu viku til að toga á móti skarpri lækkun á gengi krónunnar. Á föstudag seldi bankinn alls gjaldeyri úr forða sínum fyrir 3,6 milljarða króna, sem er hæsta upphæð innan dags frá árinu 2008 hið minnsta, þegar bankahrun varð á Íslandi. Frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, í dag.
Krónan hefur veikst hratt undanfarnar vikur. Frá áramótum hefur gengi hennar gagnvart evru lækkað um tæp 14 prósent, þar af hefur gengið lækkað um 12 prósent síðastliðinn mánuð.
Í Markaðnum er bent á að þrátt fyrir þetta hafi verðbólguhorfur á markaði
ekki hækkað mikið og séu enn í kringum verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands. Verðbólguskot er því ekki í kortunum.
Ástæða þess er sú að mikill slaki hefur skapast í íslensku hagkerfi, meðal annars vegna þess að kaup á flugferðum hafa nánast stöðvast, og fall á heimsmarkaðsverð á olíu togar á móti í hina áttina, en það hefur meira en helmingast það sem af er ári.
Þá er viðbúið að fasteignaverð muni standa í stað eða lækka. Það mun einnig halda aftur af verðbólgu.
Lífeyrissjóðir hvattir til að fara ekki út með fé
Landssamtök lífeyrissjóða sendu í gær frá sér hvatningu til allra lífeyrissjóða landsins um að halda að sér höndum um gjaldeyriskaup á næstu þremur mánuðum. „Þykir mikilvægt að sjóðirnir leggi sitt af mörkum við að styðja við íslenskt samfélag og stuðla þannig að stöðugleika þegar gefur á bátinn.“
Þetta kom fram í tilkynningu sem formaður stjórnar Landssamtakana, Guðrún Hafsteinsdóttir, skrifaði undir og var send í kjölfar fundar með Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra í gær þar sem fjallað var um þá óvissu sem eru nú til staðar í efnahagsmálum Íslands.
Í tilkynningunni sagði enn fremur að mikill viðskiptaafgangur síðustu ára hafi gefið lífeyrissjóðum landsins svigrúm til þess að fjárfesta erlendis og ná fram áhættudreifingu í eignasafni sínu. „Í ljósi þess að útflutningstekjur landsins munu fyrirsjáanlega dragast saman tímabundið telja Landssamtök lífeyrissjóða það eðlilegt að lífeyrissjóðir standi ekki að gjaldeyriskaupum á næstu mánuðum. Sjóðirnir eru í eigu almennings og því mikilvægt að þeir sýni ríka samfélagslega ábyrgð þegar kemur til fjárfestinga og viðbragða í okkar samfélagi á óvissutímum.“
Viðbúið er að eignasafn lífeyrissjóðanna, hvort sem er hér heima eða erlendis, muni taka á sig mikla lækkun vegna þeirra áhrifa sem útbreiðsla veirunnar sem veldur COVID-19 er að valda á efnahagskerfi heimsins, en stór hluti eigna þeirra eru markaðsverðbréf. Allir markaðir hafa lækkað mikið síðustu daga og vikur.