Samkeppniseftirlitið hefur ákveðið að undanþágubeiðnir, þar sem sóst er eftir því að víkja ákvæðum samkeppnislaga til hliðar og sem tengjast COVID-19, verði afgreiddar innan tveggja sólarhringa.
Eftirlitið hefur þegar veitt nokkrar undanþágur innan þessa ramma, sem gefur fyrirtækjum eða samtökum þeirra undanþágu frá banni samkeppnislaga við ólögmætu samráði vegna COVID-19. Þá hefur verið lögð áhersla á að stjórnvöld á viðkomandi sviði, til dæmis Lyfjastofnun eða Ferðamálastofa, taki þátt í samskiptum keppinauta hafi yfirsýn yfir viðkomandi samstarf og þar með einnig fyrirsýn yfir þær aðgerðir sem ráðist er í.
Við veitingu undanþágu er einkum metið hvort samstarfið sé nauðsynlegt og hvort það komi almenningi raunverulega til góða. Meðal annars er reynt að tryggja að hættan af skaðlegum áhrifum samstarfsins verði takmörkuð.
Samkeppniseftirlitið mun því á næstu vikum leggja áherslu á afgreiðslu mála er varða viðbrögð við efnahagsvá tengdri COVID-19. Af þeim sökum mun eftirlitið þurfa að fresta meðferð ýmissa mála eða endurmeta meðferð þeirra að öðru leyti.
Þær sex undanþágur sem þegar hafa verið veittar eru eftirfarandi:
- Samstarf ferðaskrifstofa sem miðar að því að viðskiptavinir þeirra komist til síns heima og takmarka tjón af völdum COVID-19. Samstarfið er bundið þeim skilyrðum að Ferðamálastofa meti samstarfið nauðsynlegt hverju sinni og að stofnunin sé þátttakandi í samskiptum keppinautanna. Til skoðunar er af hálfu Ferðamálastofu hvort þörf sé að óska eftir frekari undanþága á þessu sviði.
- Heimild til handa Ferðamálastofu til að kalla saman ferðaþjónustuaðila á öllum sviðum. til að meta hvernig brugðist skuli við áhrifum COVID-19.
- Heimild til handa Samtökum í ferðaþjónustu (SAF) til að grípa til tiltekinna aðgerða til að auðvelda ferðaþjónustuaðilum að bregðast við breyttum aðstæðum vegna COVID-19.
- Samstarf keppinauta á vettvangi innflutnings og dreifingar á lyfjum sem miðar að því að tryggja fullnægjandi aðgengi að lyfjum. Samstarfið er bundið þeim skilyrðum að Lyfjastofnun meti nauðsyn samstarfsins og að stofnunin sé þátttakandi í samskiptum keppinautanna..
- Heimild til handa Embætti landlæknis til að kalla saman keppinauta á ýmsum sviðum, með það að markmiði að tryggja órofinn rekstur mikilvægrar starfsemi og fullnægjandi aðföng.
- Afmörkuð heimild til handa Samtökum fjármálafyrirtækja (SFF) til beita sér fyrir og taka þátt í samstarfi aðildarfyrirtækja sinna og annarra aðila á lánamarkaði, sem miðar að því að undirbúa viðbrögð við tímabundnum greiðsluerfiðleikum fyrirtækja vegna COVID-19. Forsenda heimildarinnar er að Seðlabanka Íslands sé boðið að taka þátt samskiptum keppinauta og utanaðkomandi aðili með þekkingu á samkeppnisrétti haldi utan um samskiptin.