Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun að þau í ríkisstjórninni hefðu þurft að vinna dag og nótt undanfarnar tvær vikur til þess að fylgjast með þróuninni frá degi til dags og leggja mat á raunhæfar aðgerðir til að bregðast við afleiðingum COVID-19 faraldursins.
„Það eru nokkrir hlutir sem standa upp úr. Það er gríðarlegt tekjufall í einkageiranum, sem auðvitað mun brjótast fram í tekjufalli hjá ríkinu og hinu opinbera sömuleiðis,“ sagði hann.
Ráðherrann sagði jafnframt að mál væru komin inn í þingið þar sem tekist hefði vel til með góðu samstarfi allra flokka.
Æskilegt að allir flokkarnir vinni saman?
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði Bjarna hvort hann teldi ekki æskilegt að allir flokkar á Alþingi ynnu nánar en nú væri gert að vinnu við stóra aðgerðapakkann eða sæi hann einhverja augljósa vankanta eða hindranir á því.
Bjarni svaraði og sagði að hann sæi þetta í grófum dráttum þannig að þær aðgerðir sem stjórnvöld myndu kynna – sem ríkisstjórnin myndi jafnframt vilja leggja fyrir þingið – væru í öllum meginatriðum nokkuð fyrirsjáanlegar. „Það er að segja; við þurfum að bregðast við vegna tekjufallsins, við þurfum að huga að atvinnuöryggi fólks, við þurfum að huga að því að þegar fyrirtæki tapa lausu fé þá þarf að vera til eitthvað fjármagn til þess að brúa tímabilið sem við vonumst til að verði sem styst,“ sagði ráðherrann.
Sömuleiðis væri orðið tímabært að huga að því hvernig Íslendingar myndu haga viðspyrnunni við ástandinu. „Það verður reyndar viðvarandi verkefni sem verður ekki leyst á næstu sólarhringum en við getum byrjað það samtal. Þannig að í grófum dráttum þá myndi ég vilja leggja fram þá sýn mína á þetta að þetta samtal geti mjög vel farið fram í gegnum þinglega meðferð málanna.“
Segist opinn fyrir því að mynda breiða samstöðu um viðbrögð stjórnvalda
Bjarni sagðist enn fremur vilja taka það fram við tilefnið að þetta ástand sem nú hefur skapast á undanförnum sólarhringum legði skyldur á herðar ríkisstjórninni að færa fram hugmyndir að viðbrögðum. „Og ég hygg að þegar þessi fyrstu viðbrögð verða orðin skýrari þá skapist betra svigrúm, bæði undir þinglegri meðferð þeirra mála en ekki síður vegna næstu skrefa sem verða óhjákvæmileg til þess mögulega að dýpka þetta samtal eitthvað og ég ætla að lýsa mig alveg opin fyrir því að ná að mynda breiða samstöðu um meginlínur viðbragða stjórnvalda,“ sagði hann.
Þá telur Bjarni langa leið vera framundan, ekki sé gott að spá fyrir um það nákvæmlega en „við höfum ekki séð í botninn á þessari krísu. Við getum það vonandi á þessu ári og það verða mörg mál sem eiga eftir að koma hér til umræðu milli flokka, bæði hér á þinginu og mögulega áður en mál koma til þingsins.“