Alma Möller landlæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að ef svartsýnustu spár rætist verði opnaður sérstakur farsóttarspítali ef álagið á Landspítalann verður of mikið. . Reiknað er með að 600 verði smitaðir fyrstu vikuna í apríl en mögulega 1.200. Í dag hefur veiran greinst hjá 409 manns hér á landi.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sagði það áhyggjuefni að aðeins á fimmta degi samkomubanns væru strax farin að sjást þess merki að menn væru að slaka á kröfum og tilmælum. Þá væri gríðarlega mikilvægt að fólk héldi reglur í sóttkví og að á vinnustöðum og í skólum, þar sem búið er að skipta fólki í hópa, yrði að geta þess að skiptingin tæki einnig til frítíma. Börn sem eru saman í hóp í skólanum mega umgangast sömu börn utan skóla, en helst ekki önnur.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fór á fundinum yfir stöðu faraldursins hér á landi. Hann sagði veiruna hafa greinst í öllum landshlutum. Benti hann á að 392 væru nú í einangrun vegna veirunnar en að sautján hefðu losnað úr einangrun og náð bata. Sex liggja á Landspítalanum vegna veirunnar. Einn er á gjörgæslu en ekki í öndunarvél.
Þrettán prósent sýna sem tekin hafa verið á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans hafa reynst jákvæð en um eitt prósent sýna sem Íslensk erfðagreining hefur tekið.
„Ég held að þessar tölur sýni það að faraldurinn er í vexti, ekki miklum vexti, við bjuggumst alveg eins við því að aukningin yrði meiri,“ sagði Þórólfur. „Við munum halda áfram þeim aðgerðum sem við höfum beitt; greina snemma, einangra og beita í sóttkví. Þetta eru mikilvægustu aðgerðirnar sem við getum beitt til að hefta útbreiðsluna.“
Sóttkví skilar miklum árangri
Þórólfur ítrekaði að sóttkvíin væri mjög mikilvægt úrræði því að 50 prósent af þeim einstaklingum sem greinst hafa verið með veiruna höfðu verið í sóttkví. „Þessir einstaklingar hefðu annars getað verið að smita aðra.“
Margir eru nú að biðja um undanþágur frá sóttkví að sögn Þórólfs sem bendir á að ef tekið væri tillit til allra þeirra beiðna myndi aðgerðin missa marks. „Þá fengjum við meiri dreifingu út í samfélaginu.“ Biðlaði hann til fólks og fyrirtækja að vera ekki að fá undanþágur frá sóttkví nema að brýna nauðsyn beri til.
Þórólfur sagði að farið væri að „örla á því“ að það stefndi í skort á sýnatökupinnum. „Þetta þýðir ekki það að við þurfum að hætta sýnatökum, eða breyta eitthvað stórkostlega, en þar til við fáum nýja sendingu af pinnum þurfum við að hugsa vel um hverja við erum að taka sýni frá, aðallega fólk með einkenni.“
Til þessa hafi yfirvöld hér á landi „verið frjálsleg við að taka sýni og þess vegna höfum við greint svona marga,“ sagði Þórólfur. „Ég vona að það komi ekki til alvarlegs skorts, þangað til við fáum næstu sendingu. Þannig að vonandi mun þetta ekki koma niður á þessari öflugu gagnaöflun sem við viljum hafa. En það gæti hugsanlega gerst.“
Engum sem hefði verið í tengslum við smitaða eða sýnt einkenni hafi verið vísað frá.
Sagði hann það gríðarlega mikilvægt að þeir sem færu í sýnatöku færu í einangrun þar til niðurstaðan væri ljós.
Mögulega verða 1.200 smit í byrjun apríl
Alma Möller landlæknir sagði að vegna aukningar á smitum úr sýnatökum í fyrradag hafi spá um þróun faraldursins nokkuð breyst. Núna er gert ráð fyrir því að hámark greindra náist fyrstu vikuna í apríl. Reiknað er með að 600 verði þá smitaðir en mögulega 1.200. Gert er ráð fyrir að sextíu myndu þá þurfa innlögn á spítala en allt að 200 samkvæmt svartsýnustu spám. Hvað gjörgæsluþörf varðar er talið að í besta falli þurfi 11 að leggjast inn á gjörgæsludeild en í versta falli 50.
„Þetta getur auðvitað breyst mjög mikið, bæði vegna fámennisins og að við erum snemma í faraldrinum,“ sagði Alma. En vonast er til þess að spálíkanið verði stöðugra eftir því sem á líður.
Alma sagði að augljóst væri að áhættan sé mest hjá eldra fólki en að ungt fólki geti þó veikst alvarlega og vísbendingar um það eru meðal annars frá Ítalíu og Norðurlöndum. „Það má vera að yngra fólk dragi frekar að leita læknis og því viljum við hvetja yngra fólk, þá sem eru undir fimmtugu, og hafa verið með flensulík einkenni, ef þau fá ný einkenni, sérstaklega mæði, að hafa samband við heilsugæsluna.“
Alma ræddi einnig um undirbúning heilbrigðiskerfisins. „Nú erum við auðvitað að búa okkur undir þessa verstu sviðsmynd og þá er verið að skoða núna hvernig þjónustan verður útfærð og skipulögð og að hvar verði opnaður farsóttarspítali ef að Landspítalinn ræður ekki við þann fjölda sem þarf að sinna.“
Sóttvarnalæknir og landlæknir voru spurðir hvort að aukning smita núna væri í takti við fyrri svartsýnustu spár og hvort að bregðast þyrfti sérstaklega við því. „Við erum núna að bregðast við verstu sviðsmynd og vinnum að því að tryggja það sem hægt er,“ sagði Alma.
Þórólfur sagði að of snemmt væri að fullyrða að svartsýnustu spár væru að rætast. Sjá þurfi til á næstu dögum hvernig smitið þróast.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sagði að til skoðunar væri að herða á skilyrðum samkomubannsins, lækka t.d. þröskuldinn um þann fjölda sem má koma saman. Þá eru frekari lokanir á starfsemi og öðru slíku til skoðunar og verður kynnt á næstu dögum. Það er þó ekki þannig að slíku verði komið skyndilega á heldur verður gefinn fyrirvari.
Spurður af hverju ekki væri gripið til lokana líkt og í nágrannalöndunum svaraði Víðir að yfirvöld teldu aðgerðir sem þegar hafi verið gripið til, að rekja, einangra og setja í sóttkví, væru að skila árangri. „Það eru mjög fáir og jafnvel engir í Evrópu að gera þetta en lönd á borð við Singapúr og Suður-Kóreu hafa unnið eftir svipaðri aðferðafræði og náð góðum árangri og við erum að reyna að fara þá leið.“