Alma Möller landlæknir tilkynnti það á upplýsingafundi í dag að verið væri að endurskipuleggja þjónustu heilbrigðiskerfisins og í undirbúningi er að láta af valkvæðum skurðaðgerðum og öðrum inngripum, s.s. speglunum, sem ekki eru brýn. „Þetta er vegna þess að auðvitað er smithætta í slíkum nánum samskiptum en líka vegna þess að ef koma upp fylgikvillar þá getur það leitt til koma á bráðamóttöku og jafnvel sjúkrahúsinnlagnar.“
Nú yrði að forgangsraða en Alma ítrekaði að allar aðgerðir sem ekki þola bið verði að sjálfsögðu gerðar.
Miðað við dánartíðni frá Ítalíu í gær mætti gera ráð fyrir að tuttugu dauðsföllum af völdum sjúkdómsins hér á landi nú þegar. Hins vegar er að sögn Ölmu enn ekki búið að uppfæra spálíkan íslenskra heilbrigðisyfirvalda hvað þetta varðar. Hún sagði það hafa komið sér á óvart hvernig faraldurinn þróaðist á Ítalíu og á Spáni. „Við erum að vona að faraldurinn fari örlítið mildari höndum um okkur.“
Sagðist hún vona að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til hér á landi geri það að verkum að það takist að hægja meira á faraldrinum, „en ég ætla svo sannarlega ekki að hrósa happi fyrr en það liggur fyrir.“
„Þetta eru risavaxin verkefni og flókin sem [fjölmargir aðilar] eru að fá í fangið á hverjum degi og fólk tekst á við af æðruleysi og fagmennsku,“ sagði Alma er hún þakkaði starfsfólki heilbrigðiskerfisins, Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar og starfsfólki hans, fyrir vel unnin störf.
Mun færri sýni voru tekin í gær en síðustu daga þar sem skortur er á sýnatökupinnum. „Við erum með allar klær úti,“ sagði Alma spurð um hvenær von væri á fleiri pinnum. Sagðist hún eiga von á sendingu fljótlega og í kjölfarið vonandi stærri sendingu.
Landlæknir sagði að vissulega væri eldra fólk í mestri áhættu að veikjast alvarlega af völdum veirunnar „en það eru vísbendingar um það frá Norðurlöndunum og Ítalíu að ungt fólk sé að veikjast og lenda á gjörgæslu. Við viljum því hvetja ungt fólk, og við miðum við fimmtugt, sem er búið að vera með flensulík einkenni en fær ný einkenni, og þar erum við fyrst og fremst að hugsa um andþyngsli, að það hafi samband við heilsugæsluna, Heilsuveru eða hringja í 1700.“
Alma sagði margar spurningar berast um óléttar konur. Rifjaði hún upp að svínaflensan hafi lagst þungt á þær en ekkert bendi til að það sama gildi um þessa veiru.
Loka þarf nudd- og hárgreiðslustofum
Hertar aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins verða kynntar um helgina og taka gildi í næstu viku. Netverslun og heimsendingar munu vega þyngra á næstunni, sagði Víðir Reynisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn almannavarnardeildar, á fundinum. Hann sagði að verið væri að skoða að þrengja enn að fjöldatakmörkunum sem gæti haft áhrif á verslanir, svo dæmi sé tekið. Einnig er verið að skoða einstaka starfsemi þar sem ekki er hægt að uppfylla skilyrði um fjarlægðartakmarkanir, þ.e. tvo metra á milli fólks.
Það myndi t.d. eiga við um hárgreiðslustofur, nuddstofur og aðra starfsemi þar sem nánd er mikil og snerting jafnvel sömuleiðis. Starfsemi af þessum toga verður að hætta tímabundið. „Þetta er hluti af stærri aðgerðapakka en ég vil nefna þetta sérstaklega. [...] Þegar við erum farin að lækka fjölda þeirra sem mega fara inn í verslanir á sama tíma þá er augljóst að sumar þeirra munu eiga erfitt með að sinna sinni starfsemi áfram og þurfa að endurskipuleggja sig.“
Tryggja verður heilbrigðisstarfsfólki forgang að skólakerfinu
Þá er verið að skoða frekari takmarkanir á skólastarfi. „Í þessari veiru veikjast miklu færri börn. [...] Þannig að við erum fyrst og fremst að skoða að herða aðgerðirnar varðandi skólana fyrst og fremst til að tryggja það að framlínustarfsmennirnir, og þá erum við sérstaklega að horfa til heilbrigðisstarfsmanna, að þeir fái fullan forgang [að skólunum]. Við erum að lenda allt of mikið í því núna að heilbrigðisstarfsmenn geti ekki mætt í vinnu vegna þess að þeir fá ekki pláss á leikskólum eða grunnskólum fyrir börnin sín. Þannig að við þurfum að bregðast við þessu núna um helgina.“
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, greindi frá því á
fundinum að 24 starfsmenn sjúkrahússins væru í einangrun og 266 í sóttkví.