Efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19 eru án hliðstæðu, segir í samantekt um þær á vef stjórnarráðsins. Heildarumfang aðgerðanna gæti numið yfir 230 milljöðrum króna, sem felst annars vegar í frestun greiddra gjalda og hins vegar auknum útgjöldum, skattalækkunum og lánafyrirgreiðslu með ríkisábyrgð. Auk þess mun ríkissjóður styðja við hagkerfið með lægri skatttekjum og auknum útgjöldum sem leiða af verri efnahagsaðstæðum. Þessar aðgerðir leggjast á sveif með lækkun Seðlabanka Íslands á stýrivöxtum, bindiskyldu og sveiflujöfnunarauka.
Aðgerðunum er fyrst og fremst ætlað að vinna gegn atvinnuleysi og tímabundnum tekjumissi einstaklinga með hlutaatvinnuleysisbótum, aðgengi að séreignarsparnaði, frestun skattgreiðslna fyrirtækja og fyrirgreiðslu vegna rekstrarlána til þeirra.
Þegar bein áhrif faraldursins verða í rénun verður stutt myndarlega við endurreisn hagkerfisins með auknum opinberum framkvæmdum sem stuðla að langtímahagvexti, skattaafslætti vegna vinnu á verkstað og átaki í markaðssetningu Íslands fyrir ferðamenn.
Hér að neðan er að finna svör við algengum spurningum sem kunna að vakna og fengin eru af vef stjórnarráðsins.
Hver eru áhrif COVID-19 á efnahagslífið?
COVID-19 faraldurinn hefur neikvæð áhrif á efnahagslífið um allan heim. Búast má við töluverðri fækkun ferðamanna sem koma hingað til lands á næstu mánuðum. Vegna faraldursins fara Íslendingar einnig sjaldnar í búðir og á veitingastaði og þá hefur þurft að fella niður ýmsa viðburði. Framleiðsla getur einnig dregist saman. Tekjur fjölda fyrirtækja skerðast vegna ástandsins, ekki síst í ferðaþjónustu. Líklegt er að mörg fyrirtæki grípi til uppsagna til að bregðast við þessu, en aðgerðir stjórnvalda miða að því að verja störf eins og kostur er. Faraldurinn hefur því töluverð áhrif á efnahagslífið á Íslandi en búist er við því að áhrifin gangi til baka þegar faraldurinn er genginn yfir, enda eru undirstöður hagkerfisins traustar.
Hvernig aðgerða eru stjórnvöld að grípa til?
Aðgerðir stjórnvalda eru afar umfangsmiklar og veita öflugt mótvægi við efnahagsáhrif faraldursins. Aðgerðirnar miða fyrst og fremst að því að auðvelda heimilum og fyrirtækjum að takast á við það tímabundna tekjutap sem þau kunna að verða fyrir. Þannig minnkum við óvissu og höldum hjólum atvinnulífsins gangandi ásamt því að koma í veg fyrir fjárhagserfiðleika eftir því sem frekast er unnt. Það má ekki gleyma því að ástandið er tímabundið og aðgerðir stjórnvalda munu styðja vel við efnahagslífið þegar faraldurinn er genginn yfir.
Mun verðbólga hækka?
Verðbólga er núna 2,4% sem er nálægt markmiði Seðlabanka Íslands um 2,5% verðbólgu. Eins og sakir standa er ekki búist við því að hún hækki verulega á næstu mánuðum. Seðlabanki Íslands hefur það hlutverk að tryggja stöðuga og lága verðbólgu og mun grípa til aðgerða til að tryggja það ef þess gerist þörf.
Munu lánin mín hækka?
Ekki er búist við því að verðbólga hækki verulega á næstu mánuðum og því er ekki gert ráð fyrir að verðtryggð lán hækki meira en í venjulegu árferði. Vextir á íbúðalánum hafa farið lækkandi og eru nú mjög lágir í samanburði við hvernig þeir hafa verið sögulega. Ekki er gert ráð fyrir vaxtahækkun á næstunni.
Mun atvinnuleysi aukast?
Aðgerðir stjórnvalda miða að því að draga úr aukningu atvinnuleysis eins og unnt er en það er fyrirsjáanlegt að aðstæður á vinnumarkaði verði erfiðar á meðan COVID-19 faraldurinn veldur fækkun ferðamanna og minni umsvifum í hagkerfinu. Þegar faraldrinum linnir er engin ástæða til að ætla annað en að hagkerfið taki við sér og þá mun atvinnuleysi minnka á ný.
Erum við komin aftur til ársins 2008?
Nei, ástandið er mjög ólíkt því sem var þá. Í kjölfar bankahrunsins gripu stjórnvöld til veigamikilla aðgerða til að treysta stoðir efnahagslífsins og koma í veg fyrir að álíka ástand geti skapast aftur. Skuldir hafa lækkað mikið og stjórnvöld hafa mun meira svigrúm til að styðja við efnahagslífið í þessari niðursveiflu. Það sama gildir um bankana sem standa afar traustum fótum. Ólíklegt er að verðbólga og lán hækki mikið eins og þau gerðu í kjölfar bankahrunsins. Einnig er ólíklegt að kaupmáttur minnki mikið eins og hann gerði í hruninu.
Hvað má búast við að niðursveiflan vari lengi?
Það er erfitt að segja en miðað við þær upplýsingar sem við höfum núna er líklegast að hagkerfið muni taka við sér á næsta ári.
Fleiri spurningar og svör má nálgast hér.