Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, varar við því að heilbrigðiskerfið þar í landi gæti hrunið ef almenningur taki ekki þátt í því að hægja á útbreiðslu COVID-19. Hann hvetur landa sína til að heimsækja ekki ástvini sína í dag – á mæðradeginum.
Forsætisráðherrann biðlaði til almennings að taka þátt í „hetjulegu og sameiginlegu þjóðarátaki“ og að fylgja tilmælum um félagsforðun (e. social distancing).
Í gær höfðu 233 látist úr COVID-19 í Bretlandi og yfir 5.000 smit verið greind.
Fólk í áhættuhópum, að minnsta kosti um 1,5 milljónir manna, mun nú fá bréf eða textaskilaboð frá heilbrigðisyfirvöldum þar sem því er ráðlagt að fara ekki út á meðal almennings í tólf vikur.
Í þessum hópi eru líffæraþegar, fólk með öndunarfærasjúkdóma og ákveðnar tegundir krabbameina.
Boris Johnson ávarpaði bresku þjóðina í gærkvöldi og sagði að útlitið væri ekki gott og að smitum væri að fjölga.
„Ítalir eru með framúrskarandi heilbrigðiskerfi. En samt hafa læknar og hjúkrunarfræðingar verið ofurliði borin vegna eftirspurnarinnar. Dauðsföll á Ítalíu er þegar orðin mörg þúsund og verða sífellt fleiri. Ef við bregðumst ekki í sameiningu við til að hægja á útbreiðslunni þá er líklegt að okkar sjúkrahús verði einnig ofurliði borin.“
Benti hann á að þróun faraldursins í Bretlandi væri aðeins um 2-3 vikum á eftir Ítölum. Hann sagði að stjórnvöld hefðu brugðist við með aðgerðum sem ekki hefðu áður sést, hvorki á friðartímum né í stríði.