Samkvæmt sviðsmyndum sem unnið er með, sem eru þó í stanslausri uppfærslu, litur út fyrir að Ísland gæti verið á leið í svipaða niðursveiflu og eftir bankahrunið, eða sex til sjö prósent samdrátt. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í viðtali á RÚV í morgun.
Í sviðsmyndunum væri talið að meðal atvinnuleysi gæti orðið um átta prósent en Bjarni ítrekaði hversu mikið óvissa væri um allt framhald. „Við erum í dálítið mikilli þoku í augnablikinu.“
Hann sagði ekki gott að segja hvenær við myndum finna botn efnahagslægðarinnar. „Ég held að það sé langbest að vera hreinskilin með það að við erum á leiðinni inn í krísuna. Þetta er bara rétt að byrja vegna þess að áhrifin af því að það komi ekki ferðamenn til dæmis smitast víða um samfélagið og birtast okkur ekki síður í apríl og maí heldur en menn hafa séð í dag og inn í sumarið. Það er langur tími í að við finnum botninn ef við tölum um þetta í einhverjum vikum, og mögulega í mánuðum.“
Miklar væntingar til fjármálakerfisins um viðbrögð
Bjarni ræddi þær leiðir sem ríkisstjórnin kynnti á laugardag sem viðspyrnu fyrir íslenskt efnahagslíf, og voru í þeirri kynningu metnar sem 230 milljarða króna ráðstafanir. Hann sagði að það hefði skipt miklu máli að fresta strax greiðslu opinbera gjalda og samþykkja hlutabótaleiðina, sem gerir fyrirtækjum kleift að setja starfsmenn á bætur fyrir allt að 75 prósent af launum þeirra án þess að segja upp ráðningarsambandi.
Hann var þó alveg skýr með að það þyrfti að endurmeta stöðuna reglulega og grípa til fleiri aðgerða, til dæmis varðandi hlutabótaleiðina. Hún væri nú sett upp í tvo og hálfan mánuð en mögulega þyrfti að fara fram endurmat á þeim gildistíma.
Hafnar því að aðgerðir séu gamalt vín á nýjum belgjum
Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar fyrir að fela ekki í sér mikið af nýjum ríkisútgjöldum. Af þeim 230 milljörðum króna sem kynntir voru eru á bilinu 60 til 70 milljarðar króna ný ríkisútgjöld. Bjarni sagði að Ísland sé á mjög svipuðum slóðum og Norðurlöndunum hvað varðar umfang.
Ein af þeim leiðum sem hefur verið gagnrýnt að sé talin til aðgerða ríkisstjórnarinnar sé heimild fyrir fólk að nýta séreignarsparnað sinn, en af honum þarf að greiða skatt. Því er hún í raun tekjuöflunarleið fyrir ríkissjóð. Bjarni svaraði þeirri gagnrýni svona: „Ef að fólk á sparnað, og vill sækja hann þá á ríkið ekki að standa í vegi fyrir því að það geti gert það.“
Hann sagði að í aðgerðunum fælust líka skattalækkanir og fjárfestingaátak. Það síðarnefnda feli í sér að nýjar fjárfestingar upp á 20 milljarða króna verði færðar inn á árið 2020. „Menn segja að þetta sé gamalt vín á nýjum belgjum en það er bara allur munur á því að færa þessar fjárfestingar inn á árið 2020 en að hafa ætlað að fara í þær á næstu árum. Auðvitað ætlum við að fylgja þessu eftir með frekari fjárfestingum 2021, 2022 og 2023 og svo framvegis.“
Ríkisábyrgðin ætti að tryggja lægri kjör
Aðspurður um stöðu lítilla og meðalstóra fyrirtækja sem eru ekki í ferðaþjónustu, en eru að verða fyrir miklum búsifjum núna, eins og t.d. hárgreiðslustofur og líkamsræktarstöðvar, þá sagði Bjarni að þau úrræði sem kynnt voru á laugardag ættu að gagnast þeim líka. Auk þess væri viðskiptabönkum slíkra fyrirtækja beinlínis skylt að hjálpa þeim. „Ef við tökum til dæmis þessi brúarlán, þá vegna ríkisábyrgðarinnar, ættum við að sjá lægri kjör en við höfum áður séð og hafa þau þó verið að lækka meira en við höfum dæmi um í sögunni. Við erum með lægstu vexti sem hafa sést á Íslandi.“
Ýmsir hafa lýst yfir áhyggjum af getu þeirra fyrirtækja sem munu þurfa að fresta opinberum greiðslum eða taka brúarlán til að greiða upp þann skafl sem skapast þegar ástandinu er lokið. Bjarni sagði að það væri ástæða til að hafa áhyggjur af því. „Þeim mun meiri líkur eru á þessu eftir því sem krísan dregst lengur og verður dýpri og alvarlegri[...]Þess vegna kann það að vera að uppsetningin á þessu reynist sumum ofviða og það er eðlilegt að við tölum um það hreint út, við munum bregðast við því.“
Icelandair mikilvægasta fyrirtækið sem starfar á Íslandi í dag
Að lokum ræddi Bjarni stöðu Icelandair. „Það sem blasir við í mínum huga er að ef það verður röskun í alþjóðafluginu til og frá Íslandi og samgöngum og vöruflutningum vegna þess er ógnað þá höfum við skyldu til þess að stíga inn í þá mynd. Enn sem komið er þá er fyrirtækið að vinna með sínar eigin áætlanir og byggja á sinni sterku lausafjárstöðu en ég hef heyrt það beint frá stjórnendum fyrirtækisins að þeir þurfa að vera í stöðugu endurmati á stöðunni vegna þess að það eru að birtast aðgerðir einstakra þjóðríkja.“
Í hans huga væri þó enginn vafi um mikilvægi Icelandair fyrir íslenskt efnahagslíf. „Ég er sammála því að þetta er eitt mikilvægasta ef ekki mikilvægasta fyrirtækið sem starfar á Íslandi í dag.“