Staðfest smit af nýju kórónuveirunni eru nú orðin 648 hér á landi. Í gær voru þau 588 og hefur þeim því fjölgað um sextíu á einum sólarhring. Í dag eru 8.205 manns í sóttkví en í gær var fjöldinn 6.816.
Tæplega 1.600 manns hafa lokið sóttkví. Flest smitin eru svokölluð innanlandssmit, eða 270 talsins. Staðfest er að 206 smitanna má rekja beint til dvalar í útlöndum. Uppruni 172 smita er óþekktur.
Nú liggja þrettán á sjúkrahúsi vegna COVID-19 sjúkdómsins. Á síðunni Covid.is kemur fram að 51 hafi náð sér af sjúkdómnum.
Í dag hafa 10.658 sýni verið tekin frá upphafi faraldursins, þar af 357 síðasta sólarhringinn.
Færri sýni hafa verið tekin síðustu daga vegna yfirvofandi skorts á sýnatökupinnum sem nauðsynlegir eru til rannsóknanna. Þórólfur Guðnason sagði á upplýsingafundi almannavarna í gær að unnið væri að því hörðum höndum að fá fleiri sýnatökupinna til landsins. Í gær kom svo einnig fram í fréttum að fyrirtækið Össur ætti pinna og að verið væri að kanna hvort að þeir séu nothæfir til rannsóknanna.
Þórólfur hefur sagt að ýmislegt geti skýrt af hverju fjöldi nýrra smita sveiflist milli daga. Ein skýringin gæti verið sú að færri sýni eru nú tekin og önnur sú að fyrir nokkrum dögum komu upp nokkur hópsmit. Hann hefur einnig sagt að faraldurinn sé enn í vexti og að því sé spáð að hann nái ekki hámarki fyrr en um miðjan apríl.
Samkvæmt spálíkani sem uppfært var í gær er búist er við því að fyrir lok apríl hafi líklega um 2.500 manns á Íslandi verið greindir með COVID-19, en talan gæti náð tæplega 6000 manns samkvæmt svartsýnustu spá.
Af þeim sem greinst hafa með Covid-19 á Íslandi eru tvö látin. Í gær lést rúmlega sjötug kona á Landspítalanum. Hún hafði undirliggjandi sjúkdóm. Konan er fyrsti Íslendingurinn sem deyr úr COVID-19 sjúkdómnum sem nýja kórónuveiran veldur. Fyrir rúmri viku lést ástralskur ferðamaður á heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík.