Fjöldi sjálfboðaliða og Fjölskylduhjálp Íslands, í samvinnu við Slysavarnafélagið Landsbjörgu, tók höndum saman í síðustu viku til að koma matvælum og nauðsynjum til fjölskyldna og einstaklinga sem reiða sig á matarúthlutanir í hverjum mánuði, en vegna samkomubanns sem tók gildi í byrjun vikunnar var ekki lengur hægt að viðhafa hefðbundnar leiðir til úthlutunar.
Ásgeir Ásgeirsson, annar forsprakki átaksins, segir í samtali við Kjarnann að matarúthlutanirnar hafi gengið vel, þetta hafi verið gríðarleg vinna en tekist á endanum. Hann og konan hans, Rósa Bragadóttir, sem einnig tók þátt í að koma verkefninu af stað, keyrðu út síðustu sendinguna síðastliðinn laugardag. Alls var farið með matarpoka til 1.272 kvenna, karla og barna.
Um 35 manns tóku þátt í að láta útkeyrsluna verða að veruleika og segir Ásgeir að allir hafi tekið þeim vel. Verkefnið hafi verið mjög gefandi fyrir þá sem hjálpuðu til. Þá þakkar hann Ásgerði Jónu Flosadóttur hjá Fjölskylduhjálpinni sérstaklega fyrir samstarfið – það hafi verið ómetanlegt.
Beiðnirnar fleiri en þau óraði fyrir
Áður en útkeyrslan hófst var skráningarsíða sett á laggirnar með leyfi frá Almannavörnum og með vitund embættis sóttvarnarlæknis. Þar var hægt að senda inn beiðnir um úthlutun og jafnframt var opnað símaver þar sem hægt var að hringja inn í beiðnir. Símaverið var mannað fólki sem talar íslensku, pólsku, spænsku og arabísku og var ætlað þeim sem ekki hafa aðgang að netinu. Ásgeir segir að mikið álag hafi verið á símaverinu og að beiðnirnar hafi orðið mikið fleiri en þau óraði fyrir.
Engum blöðum er um það að fletta að margir þurfa á aðstoð að halda í íslensku samfélagi og bendir Ásgeir á að fólkið sem þurfi á slíkri aðstoð að halda sé einungis venjulegt fólk eins og aðrir. Það nái einfaldlega ekki endum saman.
Hann segir enn fremur að allt hafi gengið vel er varðar sóttvarnir – enda hafi allir verið mjög meðvitaðir um þær. Mikils öryggis hafi verið gætt. „Allir voru sprittaðir og með hanska og jafnvel með grímur,“ segir hann en bætir því þó við að þegar forsetinn kom í heimsókn hafi fólk tekið af sér grímurnar – svona fyrir kurteisis sakir. „Það hefði kannski ekki alveg verið viðeigandi að hylja sig fyrir forsetanum,“ segir hann og hlær.
Ríkið þarf að koma að verkefnum sem þessum
Þegar Ásgeir er spurður út í það hvort hópurinn ætli að endurtaka leikinn og flytja matvörur aftur til þeirra sem þurfa á því að halda segir hann að nú vandist málin. Aðgerð sem þessi kosti peninga. Eini möguleikinn á að halda þessu áfram, samkvæmt Ásgeiri, er að ef stjórnvöld komi að þessu með einhverjum hætti. „Við getum ekki sett þetta álag á venjulegt fólk – það þyrfti að þjálfa fólk til að vinna þessa vinnu viku eftir viku.“
En hvernig er þá hægt að hjálpa þessu fólki áfram? Ásgeir segir að svarið liggi í ríkisstuðningi. Fara þurfi vel yfir hvaða fjármagn sé nauðsynlegt og gera góða áætlun. „Það sem þyrfti að gerast væri að fá einhvern sem ræður sem er tilbúinn að skella peningum í þetta og heimila leigubílum að taka þátt í þessu.“ Sem sagt að vita hvaða fjármagn þurfi og fá síðan gott og reynslumikið fólk til að stýra þessu. Þannig gæti átak sem þetta gengið í tvo mánuði. Þá þurfi að fara í þjóðarátak svo enginn svelti í þessu ástandi.
Spilum ekki útdeilt jafnt
Ásgeir segir frá því þegar hann fór með pakka síðastliðinn laugardag til manns sem hafði verið að bíða eftir honum en hann hafði ekki haft mat alla síðustu viku.
„Maður fór að skilja betur að spilunum sé ekki útdeilt jafnt. Það virðist vera vandamál sem ekki er tekið á og fólk virðist ekki vilja ræða. Það er rosalega erfitt að horfa upp á það þegar fólk talar vandamálið niður þegar það er augljóslega til staðar. Það er mikil fátækt og erfiðleikar í gangi í samfélaginu okkar. Það fólk sem talar vandamálið niður ætti að koma í eina dreifingu og segja augliti til auglitis því fólki að ekkert vandamál sé til staðar,“ segir hann.
Hann segist þó ekki hafa grunað að vandamálið væri af þessari stærðargráðu áður en verkefnið hófst en hann bjóst við að um 300 til 400 manns þyrftu á aðstoð að halda en eins og áður segir keyrðu sjálfboðaliðarnir út matvæli og nauðsynjavörum til um 1.300 manns á þessum nokkru dögum.
Þannig hafi þau í sjálfboðaliðahópnum verið ofurliði borin þegar þau sáu viðbrögðin við ákalli þeirra enda óskuðu mikið fleiri eftir aðstoð en þeim hafði nokkurn tímann grunað.
Ásgeir lýkur máli sínu á að benda á að fólk sé ekki tölur á blaði og ef eitt barn sveltur þá sé það einu barni of mikið. Það sama megi auðvitað segja um allt annað fólk, til að mynda eldri borgara og öryrkja sem margir eru í vanda. „Það er hræðilegt að sjá að fólk sem búið er að vinna alla ævi – búið að skila sínu til samfélagsins – að það sé bara skilið eftir.“