„Aðgerðirnar eru að skila árangri. Gögnin sýna heftan vöxt – ekki veldisvöxt. Aldurssamsetning þeirra sem eru með greind smit er okkur hagstæð núna. Minnsta breyting yfir í smit hjá eldra fólki leiðir til meira álags á heilbrigðiskerfið. Við getum saman hægt á þróun faraldursins og frestað hliðrun í aldursdreifingu með því að taka þátt í aðgerðum.“
Þetta sagði Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands, á upplýsingafundi almannavarna í dag, þar sem hann ræddi reiknilíkanið sem tölfræðingar og vísindamenn við HÍ hafa þróað vegna faraldurs COVID-19 hér á landi. „Við trúum því að það verði viðsnúningur auðvitað og að lífið fari í gang eftir páska,“ sagði Thor og að vonast væri til að mest allt verði um garð gengið í júlí.
Líkön sem þessi eru viðurkennd aðferð í smitsjúkdómafræðum til að leggja mat á faraldra sem þessa.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á fundinum að spálíkanið væri mjög mikilvægt tæki til að meta þróun faraldursins og árangur þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til. „Þetta er eina tækið sem við höfum til að meta þróunina á vísindalegan hátt og losna þannig við huglægt og tilfinningalegt mat,“ sagði Þórólfur.
Hann bað fólk að hafa það í huga að um stærðfræðilíkan væri að ræða og minnti á að „þetta er ekki raunveruleikinn“.
Hollt að horfa jákvæðum augum á framtíðina
„Ég held að við höfum verið að gera rétt hér. Við höfum verið að taka ákvarðanir sem fræðin hafa sagt okkur að gera, við höfum reynt að taka það besta úr þeim og verið fljót til. Og ég held að það sé að skila okkur árangri. Ég held líka að það sé hollt fyrir alla á þessum tímapunkti að horfa á það og horfa jákvæðum augum á framtíðina. Þetta mun taka sinn tíma, þetta mun verða ákveðið álag en við munum komast vel út úr þessu ef við höldum áfram að feta þá leið sem við höfum gert fram að þessu.“
Viðbrögð þjóða við faraldrinum hafa verið mjög mismunandi, allt frá algjöru útgöngubanni og lokun landamæra til nokkurs andvaraleysis í upphafi, en þó hafa flestar þeirra þurft að grípa til umfangsmikilla aðgerða þegar á hólminn er komið, segir í samantekt vísindamannanna á vefnum covid.hi.is þar sem niðurstöður spálíkansins eru nú birtar reglulega.
Að mati vísindamannanna hafa viðbrögð íslenskra yfirvalda frá upphafi einkennst af yfirvegun og fagmennsku, en þar hafa sóttvarnalæknir, landlæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra ráðið för með reynslu sinni og fræðilegri þekkingu.
Frá fyrsta þekkta smiti á Íslandi hefur verið reynt að hefta útbreiðslu veirunnar með því að taka sýni úr einstaklingum með þekkta smitáhættu og einkenni öndunarfærasýkingar, einangra staðfest tilfelli, rekja samskipti smitaðra og beita sóttkví meðal venslaaðila smitaðra og þeirra sem koma frá skilgreindum áhættusvæðum.
Sveigt af braut veldisvaxtar
Nú er svo komið að meirihluti nýrra staðfestra smita er meðal fólks í sóttkví sem minnkar líkurnar á áframhaldandi smiti. Jafnframt hefur verið lögð mikil áhersla á að vernda eldri borgara og fólk með undirliggjandi sjúkdóma fyrir smiti með öllum tiltækum ráðum – en það mun líklega verða ein mikilvægasta aðgerðin í að stemma stigu við alvarlegum afleiðingum faraldursins. Þá hefur samkomubann verið sett á frá 16. mars til 13. apríl með enn frekari takmörkunum frá 24. mars.
Thor sagði að tekist hefði að sveigja út af braut veldisvaxtar og til betri vegar. „Ísland er raunverulega að standa sig mjög vel. Meðalaukning [smita] er með því lægsta sem þekkist í Evrópu. Þessar aðgerðir eru greinilega að skipta máli. Þær skipta máli því við vitum langmest miðað við aðrar þjóðir hvað er að gerast. Það er ekki eins og við séum með lokuð augun og höldum að það sé ekki sjúkdómur hérna.“
Í samantekt vísindamannanna kemur fram að þetta séu „vissulega fordæmalausar aðstæður og vísindaleg þekking á þessum nýtilkomna vágesti þar að leiðandi takmörkuð“.
Sóttvarnalæknir kallaði því núverið til liðs vísindamenn frá Háskóla Íslands, Embætti Landlæknis og Landspítala til að gera spálíkan um líklega þróun COVID-19 faraldursins á Íslandi á næstu vikum sem gæti nýst við ákvarðanatöku um samfélagsleg viðbrögð og skipulag heilbrigðisþjónustu.
Hópurinn kynnti fyrstu niðurstöður vinnu sinnar á upplýsingafundi með almannavörnum 18. mars og á fundi með forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra degi síðar. Spálíkanið hefur síðan verið uppfært tvívegis og helstu niðurstöður eru eftirfarandi (miðast við gögn birt í gær):
- Gert er ráð fyrir því að á meðan faraldurinn gengur yfir muni rúmlega 1.500 manns á Íslandi verið greindir með COVID-19, en talan gæti náð nær 2.300 manns samkvæmt svartsýnustu spá.
- Gert er ráð fyrir að fjöldi greindra einstaklinga með virkan sjúkdóm nái hámarki í fyrstu viku apríl og verði sennilega um 1.200 manns, en gæti náð 1.700 manns samkvæmt svartsýnustu spá.
- Gert er ráð fyrir að á meðan að faraldurinn gengur yfir muni rúmlega 100 manns þarfnast innlagnar á sjúkrahúsi, en gæti náð yfir 160 manns samkvæmt svartsýnustu spá.
- Mesta álag á heilbrigðisþjónustu vegna sjúkrahúsinnlagna verður um eða eftir miðjan apríl en þá er gert ráð fyrir að tæplega 60 einstaklingar geti verið inniliggjandi á sama tíma. Svartsýnasta spá er nær 90 einstaklingar.
- Gert er ráð fyrir því að á tíma faraldursins muni um 13 einstaklingar veikjast alvarlega, þ.e. þurfa innlögn á gjörgæslu, á tímabilinu en svartsýnasta spá er 23 einstaklingar.
- Mesta álag á gjörgæsludeildir gæti orðið í annarri viku apríl, en þá er búist við því að fimm manns liggi þar inni á sama tíma, en samkvæmt svartsýnustu spá gætu það verið 11 manns.
Þessi faraldur mun ganga yfir
„Við erum að tala um að virk smit nái toppi og byrji að fara niður aftur,“ sagði Thor. „Er það raunhæft? Já, við teljum það miðað við sögu svona faraldra.[..] Tilfellin munu ná toppi og þessi faraldur ganga yfir.“
Hann sagði að í Kína væru sífellt fleiri að útskrifast af sjúkrahúsum. „Þannig að fólk er að ná sér og það er viðsnúningur.“
Spáin um fjölda einstaklinga sem veikjast alvarlega miðast við aldursdreifingu meðal staðfestra tilfella COVID-19 á Íslandi. Rannsóknir á tilfellum COVID-19 í Kína benda til þess að alvarleiki sjúkdómsins sé verulega aldurstengdur en há tíðni smita meðal aldraðra á Ítalíu er ein líkleg skýring á hárri tíðni alvarlegra veikinda og dauðsfalla þarlendis. Þeir sem smitast hafa hér á landi eru tiltölulega ungir miðað við það sem hefur gerst í mörgum öðrum löndum.
„Aldursdreifing á Íslandi er ennþá mjög hagstæð, flestir hinna smituðu er á miðjum aldri og fá smit hafa hlutfallslega greinst hjá eldra fólki. „Það er gríðarlega mikilvægt að halda í þessa dreifingu sem lengst því áhættan á að leggjast inn á spítala eykst snarlega með hækkandi aldri,“ sagði Thor. „Það er mjög mikilvægt að hefta sem mest smit yfir í eldri hópa.“
Veruleg breyting á aldurssamsetningu smitaðra hér á landi, t.d. aukin útbreiðsla meðal aldraðra, gæti á stuttum tíma fært niðurstöður líkansins upp í efri mörk þess, þ.e.a.s. að svartsýnustu spá. „Því má segja að þó ráðstafanir sóttvarnalæknis og yfirvalda til að vernda þennan hóp reynast mörgum erfiðar, þá séu þær afar mikilvægar,“ segir í samantekt vísindamanna Háskóla Íslands.
Óvissa næstu mánuði
Þróun COVID-19 faraldursins meðal þeirra þjóða sem hafa gengið í gegnum hann á undan okkur (t.d. Kína, Suður-Kórea og Ítalía) bendir til þess að með umfangsmiklum samfélagsíhlutunum sé unnt að hemja veldisvöxt faraldursins. Það er mikilvæg vísbending þrátt fyrir að óvissa ríki enn um hvað gerist þegar losað er um þessi miklu samfélagshöft. „Við þessa óvissu þurfum við væntanlega að búa næstu mánuði.“
Ítrekað hefur verið bent á nauðsyn þess að þjóðir heims setji í forgang greiningu sjúkdómsins en alþjóðlegur samanburður á skimunartíðni á COVID-19 sýnir að hún er hæst á Íslandi og Færeyjum. Þrátt fyrir þennan fjölda greiningarprófa þá er hlutfallsleg aukning COVID-19 tilfella á síðustu vikum einna lægst hérlendis í samanburði við aðrar Evrópuþjóðir. „Það er algjör gæfa að þessi stefna hafi verið tekin hérna,“ sagði Thor.