Alma Möller landlæknir greindir frá því á upplýsingafundi almannavarna í dag að smit hefði komið upp bæði á Landakoti og á barnaspítalanum. Af þeim sökum væri ekki hægt að leggja fólk inn á Landakoti og þá hefur Rjóðrinu verið lokað.
Rjóðrið er hjúkrunar-, hvíldar- og endurhæfingarheimili fyrir langveik börn. Vegna smitsins sem upp kom á barnaspítalanum hefur þurft að færa til starfsfólk. Rjóðrinu er þó ekki síður lokað til þess að vernda viðkvæma skjólstæðinga þess.
Alma brýndi fyrir heilbrigðisstarfsfólki að fara sérstaklega varlega, líka utan vinnutíma. Smit sem hafa greinst eru meðal starfsfólks.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á fundinum að sautján sjúklingar lægju nú á sjúkrahúsi hér á landi vegna COVID-19. Þrír eru á gjörgæsludeild og allir eru þeir í öndunarvél.
Hann vakti líka athygli á því að ekki væri lengur yfirvofandi skortur á sýnatökupinnum eftir að um 6.000 pinnar fundust „á óvæntum stað“ eins og hann orðar það. „Það er því allt útlit fyrir að hægt verði að taka sýni eins og þarf.“