Um tuttugu manns var sagt upp hjá Sýn í dag. Viðskiptablaðið greinir frá þessu í dag en Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, staðfestir þetta við miðilinn. Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið að deildir hafi einnig verið sameinaðar og starfsfólk fært til milli deilda til að reyna að lágmarka uppsagnir í því erfiða árferði sem nú er til staðar í efnahagsmálum.
Kjarninn greindi frá því í lok febrúar að tap ársins hjá félaginu hefði numið 1,7 milljörðum króna miðað við hagnað upp á 443 milljónir króna árið 2018. Hagnaður ársins að frádreginni niðurfærslu á viðskiptavild var 703 milljónir króna. Einskiptiskostnaður ársins nam 358 milljónum króna.
Tap á síðustu þremur mánuðum ársins 2019 nam tveimur milljörðum króna samanborið við 193 milljón króna hagnað á sama tímabili í fyrra. Viðskiptavild var færð niður um 2,4 milljarða króna sem skýrir tapið á síðustu þremur mánuðum ársins.
Heiðar segir í samtali við Viðskiptablaðið að flestar uppsagnirnar séu tengdar íþróttadeildinni en einnig hafi komið til uppsagna í auglýsingadeild. Lítið sé um beinar útsendingar af íþróttum þessa dagana enda búið að fresta deildum í flestum keppnisíþróttum, bæði hér á landi og erlendis.
DV greinir frá því í dag að á meðal þeirra sem þurfa að hætta störfum sé íþróttafréttamaðurinn Arnar Björnsson. Hann hafi hafið störf á RÚV árið 1986 sem almennur fréttamaður en farið nokkrum mánuðum síðar út í íþróttafréttir og starfað við þær allar götur síðan.