Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri fjallar um það ástand sem upp er komið vegna COVID-19 faraldursins í stöðuuppfærslu á Facebook í dag.
„Síðustu 500 ár – eða svo – hafa skæðir alheimsfaraldrar af inflúensu geisað um tvisvar til þrisvar sinnum á öld. Enginn man líklega nú eftir eftir hinni svo kölluðu „Asíuflensu“ árið 1957 eða „Hong Kong“ inflúensunni árið 1968. Þetta voru þó mjög mannskæðir flensufaraldrar á tuttugustu öld – þó ekki komist þeir í hálfkvisti við spænsku veikina er varð 21-50 milljónum manna að aldurtila um heim allan,“ skrifar hann.
Þá segir Ásgeir að það sem sé sérstakt við Covid-19 faraldurinn sé ekki veikin sjálf – heldur viðbrögðin við henni. Þær alþjóðlegu sóttvarnarráðstafanir sem gripið hefur verið til eigi sér ekki hliðstæðu. Þær feli í sér gríðarlegan efnahagslegan kostnað og gætu hæglega leitt til djúprar en vonandi skammvinnar efnahagsdýfu. Töpuð framleiðsla og tapaðar tekjur séu það gjald sem við séum að sjálfsögðu tilbúin að greiða ef við getum bjargað mannslífum.
Því sé mjög mikilvægt að Íslendingar hafi þetta í huga „áður en við sökkvum okkur í barlóm, neikvæðni eða sjálfsvorkunn. Við þurfum nú öll að færa fórnir sem vonandi hafa þá þýðingu að bjarga mannslífum – en engir björgunarpakkar af hálfu hins opinbera geta tekið þessi óþægindi af okkur nema að mjög takmörkuðu leyti,“ skrifar seðlabankastjóri.
Hann bendir enn fremur á að þeir peningar sem nú sparast vegna þess að fólk situr heima hverfi ekki – heldur muni seytla aftur inn í hagkerfið um leið og faraldurinn hefur gengið yfir. Hagsældin muni koma aftur – og vonandi fyrr en varir.
Síðustu 500 ár – eða svo – hafa skæðir alheimsfaraldrar af inflúensu geisað um tvisvar til þrisvar sinnum á öld. Enginn...
Posted by Ásgeir Jónsson on Thursday, March 26, 2020
Samdráttur allt að 4,8 prósent í ár
Fram kom á kynningu Seðlabankans í vikunni að bankinn reiknaði með, í sviðsmyndum sínum, að 2,4 til 4,8 samdráttur yrði á landsframleiðslu í ár. Fyrri spá bankans, sem birt var í febrúar, gerði ráð fyrir 0,8 prósent hagvexti. Því gæti breytingin frá síðustu spá, verði dekkri sviðsmynd Seðlabankans að veruleika, verið 5,6 prósentustig.
Sviðsmyndirnar sem kynntar voru miðuðu annars vegar við mildari áhrif og hins vegar við dekkri áhrif. Þær innihalda greiningu á væntri þróun útflutnings álafurða, hver áhrifin verða á útflutning sjávarafurða, áhrif á einkaneyslu og vinnumarkað og tímabundin áhrif einangrunar og samkomubanns. En helstu áhrifin sem metin eru koma til vegna skells í ferðaþjónustu.