Allsherjar- og menntamálanefnd hefur afgreitt frumvarp Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um breytingu á lögum um almannavarnir er varðar borgaralega skyldu starfsmanna opinberra aðila.
Samkvæmt heimildum Kjarnans leggur nefndin til að verði frumvarpið að lögum skuli þau falla úr gildi þann 31. desember næstkomandi og þar af leiðandi skuli það einungis vera til bráðabirgða.
Í frumvarpinu, sem var lagt fram í byrjun vikunnar, felst að tryggja eigi lagagrundvöll fyrir heimild opinberra aðila til að færa starfsmenn til í starfi á hættustundu. Opinberir aðilar samkvæmt því eru ríki, sveitarfélög og fyrirtæki í þeirra eigu.
Varðandi tilefni og nauðsyn frumvarpsins kemur fram í greinargerð þess að á hættustundu sé mikilvægt að opinberir aðilar hafi svigrúm til þess að nýta mannauð sinn í þau verkefni sem njóti forgangs hverju sinni. Þá geti starfsskyldur, starfsaðstæður og starfsstöðvar starfsmanna þurft að taka tímabundnum breytingum.
„Undanfarið hafa opinberir aðilar markvisst unnið að uppfærslu á viðbragðsáætlunum meðal annars vegna snjóflóðahættu, eldgosahættu og farsóttarinnar COVID-19. Í mörgum viðbragðsáætlunum er tekið fram að heimilt sé að færa fólk milli starfa til að sinna verkefnum sem hafa forgang á hættustundu. Við þá vinnu hefur komið í ljós að nauðsynlegt er að tryggja lagagrundvöll fyrir heimild opinberra aðila til að færa starfsmenn til í starfi eftir þörfum. Slík heimild þarf að vera til staðar óháð efni viðbragðsáætlana þar sem taka þarf ákvarðanir hratt og örugglega á hættustundu,“ segir í greinargerð frumvarpsins.
Kjarninn greindi frá því í vikunni að Kennarasamband Íslands hefði lagst alfarið gegn því að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt. Það taldi að þegar hættuástand væri gæti skapast öflugur hvati fyrir stjórnmálamenn að ganga lengra en réttlætanlegt væri til að mæta þeirri ógn sem að stafar. Með frumvarpinu væru stjórnvöld að auka stórkostlega völd sín yfir opinberum starfsmönnum.
Starfsmenn skuli halda óbreyttum launakjörum
Samkvæmt heimildum Kjarnans leggur allsherjar- og menntamálanefnd til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða og að þar komi fram að það sé borgaraleg skylda starfsmanna opinberra aðila að gegna störfum í þágu almannavarna á hættustundu. Opinberum aðilum verði heimilt að breyta tímabundið starfsskyldum starfsmanna og að flytja þá tímabundið milli starfsstöðva og opinberra aðila til að sinna verkefnum sem hafa forgang á hættustundu. Þá skuli starfsmenn halda óbreyttum launakjörum. Þó verði því bætt við að starfsmaður þurfi ekki að sinna þessari skyldu ef heilsufar hans sé í hættu, eða einhvers sem hann ber ábyrgð á.