Almannavarnir og heilbrigðisstofnanir njóta afgerandi trausts hjá íslenskum almenningi þegar kemur að viðbrögðum við útbreiðslu kórónuveirunnar, samkvæmt skoðanakönnun MMR sem framkvæmd var dagana 18.-20. mars.
Um 90 prósent aðspurðra sögðust bera frekar eða mjög mikið traust til viðbragða bæði almannavarna og heilbrigðisstofnana við útbreiðslu veirunnar. Traust til lögreglunnar mældist litlu minna, eða rúm áttatíu prósent.
Rúmlega helmingur landsmanna ber traust til Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar hvað viðbrögð við faraldrinum varðar, samkvæmt könnuninni, en 21 prósent aðspurðra sögðust bera lítið traust til ríkisstjórnarinnar í tengslum við viðbrögð við faraldrinum.
Traust til ríkisstjórnarinnar fór vaxandi með auknum aldri svarenda en 59 prósent í hópi elstu þátttakenda kváðust bera mikið traust til ríkisstjórnarinnar, samanborið við 44 prósent þeirra sem voru á aldrinum 18 til 29 ára.
Tekið skal fram að þegar könnunin var gerð hafði ríkisstjórnin ekki kynnt allar þær aðgerðir sem nú hafa verið boðaðar til þess að mæta efnahagsáföllunum sem fyrirséð er að heimsfaraldurinn valdi hérlendis.
Þrjátíu og níu prósent þátttakenda sögðust bera frekar eða mjög mikið traust til Alþingis í tengslum við viðbrögð við veirunni, en 27 prósent bera lítið traust til Alþingis í þeim aðstæðum sem nú eru uppi.
Fleiri vantreysta fjármálakerfinu en treysta
Einu aðilarnir af þeim sem spurt var um í könnun MMR, sem fleiri vantreysta en bera traust til, eru bankarnir og lífeyrissjóðirnir. Einungis 27 prósent segjast bera frekar eða mjög mikið traust til bankanna í tengslum við viðbrögð við veirunni, en 28 prósent segjast bera lítið traust til bankanna.
Lífeyrissjóðirnir njóta minnst traust almennings af öllum þeim sem spurt var um, samkvæmt könnuninni, en 20 prósent segjast bera traust til þeirra á meðan að fjórðungur aðspurðra, 25 prósent, sögðust vantreysta þeim.
Píratar og miðflokksfólk vantreysta ríkistjórninni helst
Þegar traust á hinum ýmsu aðilum er brotið niður eftir yfirlýstum stuðningi við stjórnmálaflokka sést að stuðningsmenn ríkisstjórnarflokkanna eru, eins og vænta mátti, líklegastir til þess að treysta ríkisstjórninni.
Næst þar á eftir komu stuðningsmenn Viðreisnar, en 62 prósent þeirra sögðust bera frekar eða mjög mikið traust til ríkisstjórnarinnar.
Þeir sem lýstu yfir stuðningi við Miðflokkinn og Pírata skáru sig nokkuð frá öðrum hvað traust á ríkisstjórninni varðar, en innan við þrjátíu prósent stuðningsmanna beggja flokka sögðust treysta viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við útbreiðslu veirunnar.
Stuðningsfólk Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar sker sig hins vegar úr varðandi traust á bankakerfinu við þessar aðstæður, en 47 prósent sjálfstæðismanna sögðust treysta viðbrögðum bankanna og 40 prósent viðreisnarfólks.
Landsmenn treysta hvorum öðrum ágætlega
Helmingur landsmanna treystir almenningi í tengslum við viðbrögð við útbreiðslu veirunnar, samkvæmt könnuninni, en 14 prósent sögðust á móti bera lítið traust til almennings.
Stuðningsfólk Pírata, Miðflokksins og Samfylkingarinnar reyndist ólíklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að segjast bera mikið traust til almennings í landinu.