Staðfest smit af kórónuveirunni eru nú orðin 890 hér á landi. Í gær voru þau 802 og hefur þeim því fjölgað um 88 á einum sólarhring. Í dag eru yfir tíu þúsund manns í sóttkví en í gær var fjöldinn 9.889.
Rúmlega 3.209 manns hafa lokið sóttkví.
Nú liggja átján sjúklingar á sjúkrahúsi vegna COVID-19 sjúkdómsins, og samkvæmt frétt á vef Landspítala liggja sex á gjörgæsludeild og eru þeir allir í öndunarvél.
Á síðunni Covid.is kemur fram að 82 hafi náð sér af sjúkdómnum til þessa.
Í dag hafa 12.613 sýni verið tekin frá upphafi faraldursins. Síðasta sólarhringinn voru 606 sýni tekin hjá Íslenskri erfðagreiningu og 383 hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Sex ný smit greindust hjá ÍE.
Þess skal getið að mismunur getur verið á tölum um sýnatökur annars vegar og fjölda smita hins vegar sem birtar eru á hverjum degi á Covid.is. Skýringin er sú að birting upplýsinga um smit taka mið af því hvenær sýnið var tekið en ekki hvenær það var greint.
Helstu niðurstöður spálíkans vísindamanna við Háskóla Íslands, með gögnum til og með 24. mars, eru þær að á meðan faraldurinn gangi yfir muni rúmlega 1.500 manns á Íslandi greinast með COVID-19 en talan gæti náð nær 2.300 manns samkvæmt svartsýnustu spá.
Þá er gert ráð fyrir að faraldurinn nái hámarki fyrstu vikuna í apríl.
Tveir af þeim sem greinst hafa með COVID-19 hér á landi hafa látist, rúmlega sjötug íslensk kona og ástralskur karlmaður á fertugsaldri.