„Að krefjast þess að opinberir starfsmenn sæti launaskerðingum kemur eins og köld gusa í andlit fólks sem leggur nótt við nýtan dag að bjarga mannslífum og gera líf samborgara sinna bærilegra, tryggja heilsu almennings og halda uppi nauðsynlegri þjónustu,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Þar vísar hún í þær hugmyndir sem settar eru fram í umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til fjáraukalaga, og Kjarninn greindi frá í morgun. Á meðal þess sem ráðið sagði þar að það séu mikil vonbrigði að ekkert hafi heyrst frá stjórnvöldum um stórfellda lækkun starfshlutfalls og tímabundnar kjaraskerðingar opinberra starfsmanna vegna efnahagslegra afleiðinga veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum.
Þar sagði einnig að Ísland sé varla byrjað að sjá hverjar afleiðingarnar verða af COVID-19 en stóra myndin sé sú að landsframleiðsla á mann muni falla verulega. Hvað atvinnulífið varði heyri til undantekninga að atvinnugreinar verði ekki fyrir fjárhagslegu höggi sem aftur leiðir til uppsagna og kjararýrnunar.
Sonja segir að meirihluti þjóðarinnar hafi lagt áherslu á að samstaðan sé mikilvægasta vopnið í baráttunni gegn vánni sem fylgir COVID-19, bæði heilsufarslega og efnahagslega. „Aðrir kjósa sér greinilega aðra leið.“
Krafa Samtaka atvinnulífsins ótímabær og óskiljanleg
Kjarninn greindi einnig frá því að Samtök atvinnulífsins hefðu verið á svipuðum slóðum í sinni umsögn.
Þar var gerð athugasemd við að engin hagræðingarkrafa sé sett á ríkisstofnanir í fjáraukalagafrumvarpinu. „Við blasir að starfsemi margra stofnana mun dragast verulega saman eða jafnvel liggja niðri í einhverjar vikur eða mánuði vegna faraldursins. Eðlilegt væri að samið yrði við starfsmenn um að fara í hlutastörf í samræmi við lög um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðarsjóð launa (minnkað starfshlutfall) sem samþykkt voru á Alþingi sl. föstudag.“
BSRB segir að krafa um hagræðingu í ríkisrekstri nú þegar reynir á almannaþjónustuna sé algjörlega ótímabær og óskiljanleg. „Að hvetja stjórnvöld til þess að lækka starfshlutfall starfsmanna til þess eins að greiða atvinnuleysisbætur á móti annað dæmi um órökrétta og gagnslausa ráðstöfun. BSRB hefur stutt aðgerðir stjórnvalda sem lúta að því að bjarga þeim fyrirtækjum frá gjaldþroti sem eru rekstrarhæf en verða fyrir alvarlegum áföllum af völdum veirunnar. Það er hins vegar umhugsunarefni þegar stöndug fyrirtæki sem greitt hafa eigendum milljarða í arðgreiðslur á undanförnum árum fara strax í að lækka starfshlutfall eða segja upp fólki í tímabundinni niðursveiflu frekar en að standa með sínu starfsfólki.“