Lögreglan hefur fengið ábendingar um það að verið sé að færa þjónustu sem veitt er á hárgreiðslustofum til dæmis í heimahús eftir að hertar reglur um samkomubann tóku gildi fyrr í vikunni. „Komm on, það er ekki að ástæðulausu að við settum þetta bann á,“ sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra á upplýsingafundinum í dag. „Það er ekkert hættuminna að gera þetta heima hjá sér en inni á hárgreiðslustofunni. Við verðum bara að vera með ljóta hárgreiðslu næstu vikurnar. Við verðum að lifa með því.“
Víðir minnti á að fólk í sóttkví mætti fara út að ganga en þyrfti að gæta þess að halda 2 metra fjarlægð milli sín og annarra vegfarenda. En hann áréttaði að fólk í sóttkví mætti ekki fara í verslanir eða annað slíkt. „Við erum að fá allt of mikið af tilkynningum um fólk í sóttkví sem er að fara í verslanir. Þó að þú reynir að halda tveggja metra fjarlægð þá er það ekki leyfilegt.“
Víðir minnti einnig á að ekki fleiri en tuttugu mættu vera á hverjum vinnustað samkvæmt hertu reglunum og að allir yrðu að gæta þess að halda tveggja metra fjarlægð frá næsta manni. „Við erum með ágæta rýmisgreind og ágæt í stærðfræði og kunnum að telja upp á tuttugu.“
Hvað verslanir varðar benti Víðir á að ef ekki væri lengra en tveir metrar milli afgreiðslukassa yrði annar hver kassi að vera lokaður. „Það er ekki flóknara en það.“
Verslanir eiga samkvæmt reglunum að merkja á gólf hvar tveggja metra línan er. „Og ekki vera að sækja um undanþágur fyrir hvað sem er. Þetta samkomubann og þessar takmarkanir eru settar í ákveðnum tilgangi, til að verja líf. Við sjáum stöðuna á gjörgæslunni núna, við sjáum stöðuna á Landspítalanum. Og þetta er ástæðan fyrir því að við erum að fara í þetta. Verið ekki að sækja um undanþágur fyrir starfsemi sem getur beðið.“
Víðir sagði að öllum ætti að vera fullkunnugt um að margt í samfélaginu lægi niður að stóru leyti. „Það mun leggjast ennþá meira niður á næstunni. Við verðum bara að aðlaga okkur að því ástandi. Það kemur betri tíð, það kemur sumar. Vinnum þetta saman þangað til.“