Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagðist á daglegum blaðamannafundi í dag hafa orðið fyrir vonbrigðum með brot á samkomubanni síðasta sólarhring. „Við erum kannski enn að átta okkur á alvarleika málsins, það getur vel verið. Og við þurfum kannski bara aðeins lengri tíma til þess.“
Hann sagði að vonandi værum við öll að komast í þann gír að átta okkur á því að lífið okkar væri ekki eðlilegt eins og er. „Við getum ekki ætlast til þess að á meðan við erum í svona ástandi að við getum hegðað okkur eins og við gerðum áður en þetta kom upp.“
Allir þyrftu að breyta hegðun sinni og lifa öðruvísi. „Ef við gerum það og ef við gerum það saman eins og við erum búin að vera að gera að stærstu leyti hingað til þá komumst við miklu hraðar í gegnum þetta. Og komumst betur í gegnum þetta og langtímaáhrifin verða miklu minni,“ sagði Víðir.
Hann hvatti því Íslendinga – og sérstaklega unga fólkið – sem hefði verið ábyrgir og frábærar fyrirmyndir að hjálpa „okkur hinum sem eru miðaldra að komast í gegnum þetta með því að minna okkur á þegar við erum ekki að standa okkur“ og beina okkur á rétta braut. „Við hin sem erum að gleyma okkur þurfum að taka tilmælunum vel og við treystum á það að við hjálpumst öll með þetta,“ sagði Víðir.
Endurskoðuð spá kemur eftir helgi
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði að áhugavert væri út frá veirufræðinni að af 504 sýnum hefðu 14 prósent þeirra verið jákvæð, þ.e. sýnt merki um sýkingu en hjá Íslenskri erfðagreiningu hefði af 518 sýnum verið einungis 0,6 prósent jákvæð. „Þetta er ákveðinn spegill á samfélagssmit,“ sagði sóttvarnalæknir.
Hann greindi frá því að á Landsspítala lægju nú 19 einstaklingar inn með COVID-sýkinguna og þannig væru alls fjöldi innlagna 33, fyrir utan þá tvo sem lágu inni á sjúkrahúsinu á Akureyri en eru nú útskrifaðir. Á gjörgæslu eru nú ellefu einstaklingar, samkvæmt Þórólfi, og af þeim eru sex í öndunarvél.
„Matið á faraldrinum núna er nú í hægum vexti – hann er ekki í veldisvexti, getur maður sagt. Og eins og við töluðum um í gær þá virðist hann ennþá vera að fylgja bestu spá eða líklegustu spá við fjölda tilfella. En varðandi alvarlegar innlagnir, innlagnir á gjörgæslu, þá er svona heldur að fylgja verstu spánni,“ sagði hann.
Þá kom fram í máli Þórólfs að endurskoðuð spá myndi koma eftir helgi.
„Þannig að ég held að við getum enn sagt að aðgerðirnar virðast vera að skila árangri og stór hluti af þeim sem greindust síðastliðinn sólarhring var í sóttkví eða yfir 60 prósent. Sem sýnir mikilvægi sóttkvíar og hversu mikilvægt það er að halda fólki áfram í sóttkví og greina það þannig fljótt,“ sagði hann.