Alma Möller landlæknir ítrekaði á daglegum blaðamannafundi í dag að ekki væri gagnlegt að nota áfengi til að takast á við erfiðar tilfinningar eins og áhyggjur og kvíða – eða til að slaka á. Það væri skammgóður vermir sem gerði ógagn.
Fram kom í fréttum í gær að sala á áfengi í Vínbúðunum hefði aukist um 24 prósent í lítrum talið síðan samkomubannið hófst, miðað við sömu vikur í fyrra. Viðskiptavinum hefði þó ekki fjölgað eins, svo hver og einn keypti meira. Lítrasala á rauðvíni og hvítvíni hefði aukist um helming.
Neysla áfengis veikir ónæmiskerfið
„Þær fréttir að sala áfengis hafi aukist til muna eftir að samkomubann var sett á hefur valdið okkur áhyggjum. Og það er þannig að neysla áfengis veikir ónæmiskerfið og hún hefur neikvæð áhrif á heilsu og vellíðan til lengri tíma enda tengist neysla fjölda sjúkdóma,“ sagði Alma. Hún bætti því við að áfengi gæti hugsanlega hjálpað fólki að sofna en það rýrði mjög gæði svefnsins.
Landlæknir benti jafnframt á að mikilvægt væri að muna að undir áhrifum áfengis dofnaði dómgreindin og þá væri meiri hætta á því að „við hlýðum ekki Víði og fylgjum ekki fyrirmælum“.
Allir þurfa að vera að varðbergi
Alma minntist enn fremur á orð ríkislögreglustjóra sem hún viðhafði fyrir nokkrum dögum að í svona ástandi væri hætta á að heimilisofbeldi ykist. Að börnum yrði ekki sinnt nægilega vel, þannig að allir þyrftu að vera á varðbergi.
„Þannig að nú er tími til að kynna sér hvernig við borðum hollt, hvernig við hreyfum okkur og ég ætla sérstaklega að nefna svefn sem er ein mikilvægasta undirstaða heilsu. Og ef það er ekki tími núna til að huga að svefni þá hvenær?“ spurði Alma.