Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra bendir á í stöðuuppfærslu á Facebook í dag að töluvert hafi verið rætt um arðgreiðslur til fyrirtækja sem muni njóta ríkisábyrgðar í aðgerðum stjórnvalda en gagnrýnt hefur verið í samfélaginu að ekki hafi verið sett skilyrði fyrir svokölluðum brúarlánum.
„Þetta mál hefur verið rætt í efnahags- og viðskiptanefnd og mun nefndin gera tillögur sem tryggja að fyrirtæki sem fá ríkisábyrgð á hluta lána sinna verður bannað að greiða út arð eða kaupa eigin hlutabréf á meðan ríkisábyrgðar nýtur,“ skrifar hún.
Brúarlánin fela í sér að hið opinbera gengur í ábyrgð fyrir helming lána sem geta í heild numið allt að 70 milljörðum króna. Með því að Seðlabankinn, fyrir hönd ríkisins, gangi í ábyrgð fyrir lánunum þá er þess vænst að kjörin á þeim verði lægri en áður hafi sést í Íslandssögunni.
Í fjáraukalagafrumvarpinu segir um þessi lán: „Samningur ráðherra við Seðlabankann skal eftir föngum tryggja endurgreiðslu slíkra viðbótarlánveitinga og miða við að heildaráhætta ríkissjóðs vegna þeirra geti að hámarki numið 35 ma.kr.“
Katrín segir enn fremur að skipuð verði sérstök eftirlitsnefnd sem gefi ráðherra og Alþingi skýrslu um framkvæmd brúarlána sem fara í gegnum banka. Það sé mikilvægt að löggjafinn sýni þennan skýra vilja. Nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar verði dreift síðar í dag.
Töluvert hefur verið rætt um arðgreiðslur til fyrirtækja sem munu njóta ríkisábyrgðar í aðgerðum stjórnvalda. Þetta mál...
Posted by Katrín Jakobsdóttir on Sunday, March 29, 2020
Brúarlánaaðgerðin er ein helsta aðgerðin í pakkanum sem ríkisstjórnin kynnti í Hörpu um síðustu helgi. Í henni felst að auðvelda viðbótarlán lánastofnana til fyrirtækja. Þetta verður gert þannig að ríkið semur við Seðlabanka Íslands um að færa lánastofnunum aukin úrræði til að veita viðbótarfyrirgreiðslu til fyrirtækja, í formi brúarlána, sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna yfirstandandi aðstæðna.
Seðlabankinn mun því veita ábyrgðir til lánastofnana sem þær nýta til að veita viðbótarlán upp að um 70 milljarða króna. Aðalviðskiptabankar fyrirtækja munu veita þessa fyrirgreiðslu og aðgerðin er í heild metin á um 80 milljarða króna að teknu tilliti til aukinnar útlánagetu banka vegna lækkunar á bankaskatti, sem mun aukast um tæplega 11 milljarða króna. Hún kemur til viðbótar við svigrúmið sem Seðlabankinn hefur þegar gefið, sem nemur um 350 milljörðum með lækkum sveiflujöfnunaraukans síðastliðinn miðvikudag.
Til að fá bruárlán þarf fyrirtæki að hafa upplifað 40 prósent tekjufall. Þessi skilyrði hafa verið umdeild. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, ræddi skilyrðin í morgunútvarpinu RÚV í vikunni. „Þetta er allt saman matsatriði. Það má alltaf spyrja sig: hvað með fyrirtæki sem hefur séð 37 prósent tekjufall. Það kemst ekki yfir þröskuldinn. Það er einfaldlega um mjög vöndu að ráða.“ Stjórnvöld búast við því að allt af helmingur af þeim lánum sem þau muni gangast í ábyrgðir fyrir muni ekki endurgreiðast.