Auglýsing

Líklega hefur aldrei verið jafn mikill glundroði til staðar í íslensku samfélagi og nákvæmlega núna. Ekki einu sinni eftir bankahrunið. Óvissa er um hvenær faraldur sem ógnar lífi tekur enda og hversu skæður hann verður. Tugir þúsunda landsmanna sem starfa í einkageiranum flykkjast á hlutabætur til viðbótar við þá rúmlega tíu þúsund sem eru án atvinnu. Allt í einu eru laun þorra starfsmanna stórfyrirtækja á einkamarkaði greidd að stórum hluta af okkur skattgreiðendum. 

Glundroði skapar oft aðstæður til myrkraverka. Þá er til að mynda góður tími fyrir smánaða forstjóra sem hafa þurft að fara í felur vegna meintra mútu- og skattalagabrota að snúa aftur í skjóli COVID-19 umræðu. Þá er góður tími til að tilkynna um ráðningar eða skipanir sem undir venjulegum kringumstæðum myndu valda meiri úlfúð. Og góður tími til að ýta í gegn gamalli hugmyndafræðilegri þrjáhyggju um að auka frelsi í áfengissölu, undir þeim glænýju formerkjum að það hjálpi mögulega veitingastöðum í heimsendingum að lifa af COVID-19 kreppu.

Þeir sem mættu fyrstir

Ríkisstjórnin kynnti fyrir viku það sem hún kallaði stærstu efnahagsaðgerðir Íslandssögunnar. Stóru atriðin í þeim pakka voru þau að opnað var á að ríkið greiði stóran hluta af launum tug þúsunda starfsmanna fyrirtækja í einkaeigu til að hægt sé að viðhalda ráðningarsambandi. Til viðbótar verður ákveðnum fyrirtækjum, sem uppfylla skilyrði um nægjanlega mikið rekstrartap, veitt aðgengi að lánum sem ríkið ábyrgist, og verða á lægri vöxtum en nokkru sinni áður hefur þekkst. 

Auglýsing
Það er verið að veita einkafyrirtækjum fordæmalausan aðgang að skattfé til að lifa af. Því er sýndur almennur skilningur enda ljóst flestu skynsömu fólki að það sé samfélagslega hagkvæmt að verja störf og fjölbreytileika við þessar aðstæður. 

Fyrstu tvö fyrirtækin í röðina, sem skráðu annars vegar yfir fjögur þúsund starfsmenn og hins vegar um 400 starfsmenn á hlutabætur, voru Icelandair og Bláa lónið. Það fyrrnefnda greiddi rúmlega 11 milljarða króna í arð til hluthafa sinna á árunum 2012 til 2017 og hefur líka keypt af þeim hlutabréf fyrir milljarða. Það síðarnefnda hefur borgað örfáum hluthöfum sínum út samtals 6,6 milljarða króna í arð á tveimur árum. Það fyrrnefnda sagðist eiga vel á fjórða tug milljarða króna í handbæru fé. Það síðarnefnda átti 12,4 milljarða króna í eigið fé í lok árs 2018, og enn meira í lok síðasta árs. 

Bannið arðgreiðslur og endurkaup

Þótt aðstæður séu svartar, og verið sé að hjálpa eftir fremsta megni, þá má ekki vera frítt spil fyrir stórfyrirtæki til að nýta þessar aðgerðir eftir hentugleika. Í bandaríska risapakkanum sem nú hefur verið mótaður, og er upp á tvo billjarða Bandaríkjadala, eru til að mynda sérstök skilyrði fyrir þau fyrirtæki sem þiggja fjárhagsaðstoð hins opinbera. Þau skilyrði eru að fyrirtækin mega ekki greiða arð né kaupa aftur eigin bréf þangað til að ár er liðið frá því að fjárhagsaðstoðin hefur verið endurgreidd. 

Í frumvarpinu sem Alþingi er með til meðferðar nú, og leiðir af sér tug milljarða króna lán þar sem ríkið gengst í ábyrgðir, eru engin slík ákvæði þrátt fyrir að þegar hafi komið fram að ráðamenn reikni með að um helmingur lánanna ( sem verða allt að 70 milljarðar króna í fyrsta kasti) muni tapast. Fáist þau ekki innheimt verður um hreina ríkisstyrki að ræða. 

Þessu þarf auðvitað að breyta hratt, og innleiða þau skilyrði sem kapítalískasta ríki heims, Bandaríkin, hafa meira að segja innleitt hjá sér.

Kerfislega mikilvægu fyrirtækin

Áður en allt breyttist var einn stóru bankanna þriggja, Arion banki, kominn í einkaeigu. Eigendur hans, sem eru blanda af erlendum skammtímasjóðum, íslenskum einkafjárfestum og lífeyrissjóðum, hafa verið með þá stefnu að greiða sem mest eigið fé út úr bankanum á sem skemmstum tíma. Það var gert með breyttri fjármögnun, samdrætti í útlánum, stórtækum uppkaupum á eigin bréfum og arðgreiðslum umfram hagnað. Nýleg greining spáði því að arðgreiðslugetan gæti aukist um 50 milljarða króna á næsta árinu. Þetta mega þeir, bankinn er í einkaeigu og hagar sér að öllu leyti í samræmi við lög. 

Auglýsing
Til viðbótar var þrýstingur, bæði frá bankanum sjálfum, hagsmunasamtökum og fótgönguliðum í fjölmiðlum um að lækka bindiskyldu, eiginfjárkvaðir og bankaskatt. Allt eru þetta leiðir sem gætu stóraukið útgreiðslu á eigin fé úr Arion banka. 

Nú, á örfáum dögum, hefur bindiskylda verið lækkuð niður í núll. Sveiflujöfnunarauki var færður úr tveimur prósentum niður í núll sem losar verulega um eiginfjárkvaðirnar. Til stendur að lækka bankaskatt úr 0,318 prósent í 0,145 prósent vegna tekjuársins 2020, eða um rúman helming. 

Seðlabankinn hefur komið þeim skilaboðum á framfæri að viðskiptabankarnir þrír ættu, vegna aðstæðna sem uppi eru og þeirra tilslakana sem veittar hafa verið, að endurskoða arðgreiðsluáform sín. Auðvelt er að gera það með Íslandsbanka og Landsbankann, enda báðir í eigu ríkisins, en Arion banki lýtur ekki slíku valdi. Þar hafa hluthafar samþykkt að fresta tíu milljarða króna arðgreiðslu vegna síðasta árs um tvo mánuði. Bankinn hélt samt sem áður áfram að kaupa eigin bréf. Það gerðist síðast 17. mars síðastliðinn og á aðalfundi Arion banka þann sama dag var heimild stjórnar til að kaupa allt að tíu prósent af hlutafé bankans endurnýjuð. Miðað við núverandi markaðsvirði þýddi það 10,4 milljarða króna greiðsla til eigenda.

Það þarf að ekki einungis að setja fyrirtækjum sem þiggja ríkisstuðning úr fyrirliggjandi aðgerðarpakka skilyrði um að eigendur þeirra geti ekki bara tekið hann út og stungið í vasann strax og betur viðrar. Það þarf líka að setja þeim kerfislega mikilvægu fyrirtækjum sem miðla stuðningnum áfram að mestu leyti, íslenskum bönkum, skilyrði um að það verði að setja tæmingu sína á ís. 

Vonbrigði Viðskiptaráðs

Viðskiptaráð er helsti hagsmunavörður fjármagnseigenda á Íslandi. Meginhlutverk þess er að berjast fyrir minna eftirliti, minna ríkisvaldi og lægri sköttum á fyrirtæki. Undanfarin ár hafa forsvarsmenn þess einnig beitt sér hart gegn baráttu láglaunafólks fyrir betri kjörum með þeim rökum að kakan sé ekki nægilega stór til að leyfa því að borða þangað til að það finnur fyrir seddu. 

Nú, þegar ríkið er að taka yfir stóran hluta launagreiðslna til starfsmanna fyrirtækja sem hafa greitt sér milljarða króna í arð á síðustu árum, og eiga tugi milljarða króna í eigið fé, fannst Viðskiptaráði viðeigandi að lauma sínum helstu hugmyndafræðilegu áherslum að í umsögn um fjáraukalagafrumvarp. 

Þar sagði að það væru mikil vonbrigði að ekkert hafi enn heyrst um skert starfshlutföll, tímabundnar kjaraskerðingar eða annað slíkt hjá opinberum starfsmönnum á sama tíma og stórfelld lækkun starfshlutfalls og uppsagnir væru að hefjast á almennum vinnumarkaði. „Hið sama ætti að gilda á opinberum vinnumarkaði. Það er sanngjarnt en eykur líka svigrúm ríkisins til að bregðast við aðstæðunum í heilbrigðiskerfinu og til þess að forgangsraða fjármunum í aðgerðir til að sporna gegn neikvæðum efnahagslegum áhrifum t.d. með því að verja atvinnulífið, þar sem verðmætasköpunin á sér stað.“ Undanskilja ætti ótilgreindan hóp ríkisstarfsmanna sem stæði í fremstu víglínu í baráttunni gegn COVID-19. 

Viðskiptaráð lét ekki þar við sitja. Það skrifaði aðra umsögn, um frum­varp rík­­is­­stjórn­­­ar­innar sem er ætlað að lög­­­festa aðgerð­­ar­­pakka hennar í efna­hags­­mál­um. Þar kom fram sú skoðun ráðsins að betra væri að ríkissjóður myndi gefa fyrirtækjunum peningana sem færðir verða til þeirra, í stað þess að lána þá. 

Sýnið auðmýkt

Það sjá það flestir að umsvif hins opinbera munu þurfa að dragast saman í framtíðinni. Tekjur þjóðarbúsins munu dragast saman og það mun ugglaust leiða af sér niðurskurðarkröfu innan opinbera kerfisins líka. Það er óumflýjanlegt. En það hefur sinn tíma og verður gert í gegnum hefðbundið ferli á Alþingi þegar rykið sest og endanleg staða blasir við, ekki með tækifærissinnaðri kröfu um skert starfshlutfall og -kjör hjá nánast öllum þeim sem starfa hjá hinu opinbera. Fólks sem að uppistöðu starfar við að veita venjulega fólki nauðsynlega þjónustu sem hinn frjálsi markaður gæti aldrei boðið þeim á viðráðanlegu verði. Opinbera kerfið verður lagað að samfélaginu sem eftir stendur, enda tilgangur þess að þjónusta það.

Auglýsing
Svo má heldur ekki gleyma því að hér voru gerðir kjarasamningar árið 2016, byggt á SALEK-líkaninu, þar sem opinberir starfsmenn gáfu eftir betri lífeyrisréttindi gegn því að laun þeirra yrðu jöfnuð við almenna markaðinn á innan við tíu árum. Það hefur ekki náðst hingað til. Auk þess hefur ekki átt sér stað einhver heildræn kjaraskerðing á almenna markaðnum. Ekkert hefur til að mynda verið tilkynnt um kjaraskerðingar á skrifstofu Viðskiptaráðs. Vinnumálastofnun reiknar með um 19 þúsund manns á hlutabætur og hluti þeirra munu halda fullum launum. Alls eru þetta tæplega tíu prósent af starfandi íslendingum. 

Það að krefjast að farið verði í almennar og heildrænar kjaraskerðingar hjá opinberum starfsmönnum, á sama tíma og allt ofangreint er að eiga sér stað, er í besta falli ósmekklegt og sýnir í versta falli algjöran skort á jarðtengingu. 

Líkt og sagði í yfirlýsingu frá BSRB þá virðist skilningsleysi Viðskiptaráðs á opinberum rekstri benda til þess að við­skipta­lífið á Íslandi skilji ekki að það er einmitt grunn­þjón­ustan sem geri viðskiptalífinu kleift að starfa. „Hvernig ætla íslensk fyr­ir­tæki að starfa og dafna án öfl­ugs heil­brigð­is- og mennta­kerf­is? Hvernig á starfs­fólk fyr­ir­tækj­anna að geta sinnt störfum sínum ef ekki eru til staðar leik­skól­ar, grunn­skólar hjúkr­un­ar­heim­ili, þjón­usta við fólk með fötlun og langvar­andi veik­indi? Hver á að hirða sorpið sem skap­ast í rekstr­inum og dag­legu lífi starfs­fólks­ins, hver á að þrífa og tryggja hrein­læti? Hvernig ætla að fyr­ir­tækin að starfa í sam­fé­lagi án öfl­ugrar lög­gæslu? Hvernig ætla fyr­ir­tækin að koma vörum sínum og þjón­ustu á markað án trausts vega­kerfis og fjar­skipta­inn­viða? Hvernig ætla fyr­ir­tæki lands­ins að starfa í inn­lendu og alþjóð­legu umhverfi án íslensks stjórn­kerfis sem stendur vörð um leik­reglur og þjón­ustu við almenn­ing og fyr­ir­tæki?“

Lögðu fram draumalista

Lengst af öllum gengu þó hagsmunasamtök sjávarútvegsfyrirtækja. Fyrst nokkrar tölur. Í lok árs 2018 áttu íslensk sjá­v­­­ar­út­­­vegs­­fyr­ir­tæki eigið fé upp á 276 millj­­arða króna. Frá hruni og fram til þess tíma hefur eig­in­fjár­­­staða sjá­v­­­ar­út­­­vegs­­fyr­ir­tækj­anna batnað um 355 millj­­arða króna.

Alls greiddu fyr­ir­tækin sér arð upp á 12,3 millj­­arða króna á árinu 2018. Frá árinu 2010 hafa þau greitt 92,5 millj­­arða króna til eig­enda sinna í arð­greiðsl­­ur. ­Sam­an­lagt vænk­að­ist hagur sjá­v­­­ar­út­­­veg­­ar­ins um 447,5 millj­­arða króna á einum ára­tug.

Afla­verð­mæti fyrstu sölu á afla sem íslensk fisk­veiði­skip veiddu í fyrra var 17 millj­örðum krónum meira en á árinu 2018, eða alls 145 millj­arðar króna, sem er það mesta sem verð­mætið hefur verið innan árs síðar árið 2015. 

Það hefur því gengið mjög, mjög, mjög vel í sjávarútvegi og nokkrir einstaklingar sem eru þar með tögl og hagldir hafa orðið ofsaríkir. Sú staða hefur gefið þeim tækifæri á því að dreifa úr sér um samfélagið og kaupa sig inn í fyrirtæki í ótengdum geirum. 

Í umsögn hagsmunasamtaka eigenda sjávarútvegsfyrirtækja um aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar var farið fram á að gerðar yrðu breyt­ingar á frumvarpinu þess efnis að greiðslu veiði­gjalds í ár verði frestað. ­Á­ætl­aðar tekjur rík­is­sjóðs vegna veiði­gjalda í ár eru tæp­lega 4,9 millj­arðar króna. Sam­tökin fóru sömu­leiðis fram á að sér­stök gjöld sem lögð eru á fisk­eld­is­fyr­ir­tæki sem stunda sjó­kvía­eldi verði frestað eða felld niður út árið 2021 til að veita fisk­eld­is­fyr­ir­tækjum meira svig­rúm til að bregð­ast við fyr­ir­séðum tekju­sam­drætti við þær aðstæður sem nú eru upp­i. 

Auglýsing
Í lok umsagn­ar­innar var svo  þrýst á að frum­varp um breyt­ingu á lögum um stimp­il­gjald af fiski­skipum verði afgreitt sem hluti af þeim band­ormi sem felst í frum­varpi rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Um er að ræða ára­langt bar­áttu­mál SFS, en á árunum 2008 til 2017 greiddu sjá­v­­­ar­út­­­vegs­­fyr­ir­tæki rúm­­lega 1,2 millj­­arða króna í stimp­il­­gjald vegna fiski­­skipa. 

Í annarri umsögn, um fjáraukalög vegna yfirstandandi efnahagsástands, kemur fram að samtökin vili að Íslandsstofa fái fjármagn til að ráðast í markaðssetningu á íslensku sjávarfangi þegar COVID-19 faraldurinn er yfirstaðinn.

Sýnið alvöru samstöðu

Í heiminum öllum er að eiga sér stað stórtækasta ríkisvæðing taps hins frjálsa markaðar í mannkynssögunni. Hún er að eiga sér stað vegna ótrúlega sérstakra aðstæðna, en hún er að eiga sér stað engu að síður. Fjármagnseigendurnir gátu á endanum ekki verið án þess að skattgreiðendur grípi þá þegar allt fer á hliðina. Of litlu hefur verið safnað til mögru áranna, meðal annars vegna þess að of mikið hefur verið tekið út úr fyrirtækjum í formi arðs og endurkaupa. 

Þessari stöðu er sýnd nánast almennur skilningur. Það þarf að tryggja heimilum og atvinnulífinu aðgengi að fjármagni og annan stuðning. Halda öllum gangandi. Það má taka undir orð Baldurs Thorlacius, viðskiptastjóra hjá Kauphöll Íslands, í beittri grein sem birtist hér á Kjarnanum í gær. Þar benti hann á að ef við komumst í gegnum þessa krísu án þess að eftir standi gjald­eyr­is­höft og sviðin jörð vafa­samra við­skipta­hátta, mark­aðs­mis­notk­un­ar­mála og innherjasvika hafi fjármálamarkaðurinn og atvinnulífið sýnt það í verki að það eigi traust skil­ið. „Við þurfum að gera bók­staf­lega allt sem við getum til að passa upp á þetta. Það er mikið í húfi og ef vel tekst til gæti íslenskur fjár­mála­mark­aður að mörgu leyti verið í mun sterk­ari stöðu en fyrir þessa krísu, til­bú­inn til að standa á hlið­ar­lín­unni og aðstoða þá sem ætla að bjarga heim­inum með aðgengi að fjár­magni. En fyrst: Ekk­ert rugl.“

Fólki er tíðrætt um það um þessar mundir að við séum öll saman í þessu. Að samstöðu þurfi til svo að hægt sé að sigla í gegnum þetta ótrúlega ástand. Sú samstaða vex út úr því að veiran skæða fer ekki í manngreinarálit. Hún getur lagst á alla, óháð því hversu mikla peninga þeir eiga, hvort þeir séu langskólagengnir eða með grunnmenntun, hvort þeir eigi einbýlishús með heitum potti í garðinum eða leigi litla blokkaríbúð í úthverfi og hvort þeir vinni í vel borgaðri vinnu í einkageiranum eða hjá hinu opinbera. 

Meirihluti þjóðarinnar virðist vera hluti af þeirri samstöðu. En það virðist nú ljóst að sumir ætli greinilega að kjósa sér aðra leið við þessar aðstæður. Þeir ætla að bjóða upp á rugl og ætla að sýna algjöran skort á auðmýkt gagnvart aðstæðunum. Þeir ætla jafnvel að nýta sér glundroðan.

Þeir ættu að skammast sín. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari