Gert er ráð fyrir því í nýuppfærðu spálíkani vísindamanna við Háskóla Íslands að á meðan faraldurinn gengur yfir þá muni rúmlega 1.700 manns á Íslandi greinast með COVID-19 sjúkdóminn, en talan gæti náð nær 2.800 manns samkvæmt svartsýnni spá.
Spáin frá 24. mars síðastliðnum var sú að rúmlega 1.500 manns á Íslandi myndu greinast með COVID-19 en að talan gæti náð nær 2.300 manns samkvæmt svartsýnustu spá.
Þá er í nýjustu spánni gert ráð fyrir að fjöldi greindra einstaklinga með virkan sjúkdóm nái hámarki í fyrstu viku apríl og verði sennilega um 1.200 manns, en gæti viku seinna náð 1.800 manns samkvæmt svartsýnni spá.
Nýja spáin gerir ráð fyrir að á meðan að faraldurinn gengur yfir muni 120 manns þarfnast innlagnar á sjúkrahúsi, en gæti náð hátt í 200 manns.
„Mesta álag á heilbrigðisþjónustu vegna sjúkrahúsinnlagna verður fyrir miðjan apríl en þá er gert ráð fyrir að um það bil 60 einstaklingar geti verið inniliggjandi á sama tíma, en svartsýnni spá er 100 einstaklingar,“ segir í nýju spánni.
Þá er enn fremur gert ráð fyrir því að á tíma faraldursins muni um 25 einstaklingar veikjast alvarlega, það er þurfa innlögn á gjörgæslu, á tímabilinu en svartsýnni spá er 44 einstaklingar.
„Mesta álag á gjörgæsludeildir gæti orðið í annarri viku apríl, en þá er búist við því að 10 manns liggi þar inni á sama tíma, en samkvæmt svartsýnni spá gætu það verið 18 manns. Smávægileg hliðrun aldursdreifingar í átt að fleiri greindum smitum meðal einstaklinga yfir sextugt myndi auka álag á heilbrigðisþjónustu talsvert.“