Á hverju ári bætast við í heimshöfin um 8 milljónir tonna af plasti. Einnig er áætlað að um það bil 640.000 tonn veiðarfæra tapist árlega. Engar tölulegar upplýsingar liggja fyrir um það hve mikið tapast af veiðarfærum, verður eftir á hafsbotni eða er fargað í sjóinn á Norðurlöndum. Áherslan á bæði atvinnu- og tómstundafiskveiðar er breytileg frá einu landi til annars en það er full ástæða til að ætla að mönnum sé vandi á höndum hvað þetta varðar á Norðurlöndum.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu norræna samstarfsverkefnisins Clean Nordic Oceans. Verkefninu er ætlað að miðla þekkingu og reynslu á aðferðum og aðgerðum til að draga úr hættu á draugaveiðum og mengun hafsins vegna tapaðra veiðarfæra.
Veiðarfæri og leifar af veiðarfærum sem týnast í hafi hafa slæm áhrif á lífríkið og geta stuðlað að bæði þjáningum og „siðfræðilega röngum dauða með veiðum drauganeta,“ segir í skýrslunni.
Norðurlönd hafa aukið áherslur sínar á mengunarvarnir í hafi en það er hins vegar „ekki hægt að halda því fram að jafn mikil áhersla sé á veiðarfæri sem ástæðu mengunar,“ segir í inngangi skýrslunnar. „Frávik á Norðurlöndum hvað þetta varðar sýnast meiri en raunverulegar sveiflur í mikilvægi veiðanna eru. Töpuð veiðarfæri eru samsvarandi og aðrir hlutir úr plasti í hafinu og geta stefnt lífi í sjó í hættu. Forgangsraða verður aðgerðum í samræmi við það.“
Ófullnægjandi yfirsýn
Ein helsta niðurstaða skýrslunnar er sú að Norðurlöndin hafa ófullnægjandi yfirsýn yfir það hve mikið og hvar veiðarfæri tapast. Jafnvel þótt fyrir hendi sé regluverk með kröfum um skýrslugerð ráða fá landanna yfir virkum kerfum til skýrslugerðar um töpuð veiðarfæri við atvinnu- og tómstundaveiðar. Þetta kemur greinilega fram í tölum um týnd veiðarfæri sem, miðað við heildarafla viðkomandi lands og fyrirkomulag fiskveiða, eru ýmist mjög lágar eða hreinlega ekki til staðar.
Þá leggja Norðurlöndin lítið sem ekkert í það verkefni að fjarlægja týnd veiðarfæri. „Þetta er bæði siðferðilega rangt og óheppilegt, í ljósi þeirrar þekkingar sem fyrir liggur um veiðar í drauganet og hve lengi þau eru að brotna niður í náttúrunni,“ segir í skýrslunni. Aðeins eitt landanna fer í hreinsunaraðgerðir árlega.
Það er umtalsvert meiri hætta á því að veiðarfæri sem lögð eru tapist (t.d. lagnet og ýmsar gerðir fiskigildra) en þau sem dregin eru (t.d. troll, nót og snurvoð). Hins vegar leggja skýrsluhöfundar mikla áherslu á það að jafnvel þótt mestar líkur séu á að veiðarfæri sem lögð eru tapist eru hlutir úr veiðarfærum sem dregin eru miklu meira áberandi í strandrusli frá fiskveiðum.
Lítil áhersla á vitundarvakningu
Svo virðist sem lítil áhersla sé á það að auka vitund fyrir vandanum á Norðurlöndum í heild sinni. Það má að öllum líkindum rekja það til blöndu meðvitaðra og ómeðvitaðra aðgerða og jafnvel viðhorfum að smástykki úr veiðarfærum lenda í hafinu. „Þetta og veiðar í drauganet getur í raun leitt til særðra og í versta falli dauða dýra í hafi,“ segir í skýrslunni „Þessu er lítill gaumur gefinn og lítið um það fjallað, hvorki hvað varðar atvinnu- né tómstundaveiðar.“
Mikill munur er á því hvernig norrænu ríkin skipuleggja móttöku á veiðarfærum sem fundist hafa eða skal fargað. Ríki með fáar en stórar miðlægar fiskihafnir hafa komið upp góðum lausnum um móttöku. Ríki með breiðara umfang og fjölda hafna hafa ekki komið upp fullnægjandi lausnum sem duga, einkum hvað varðar staðbundnari hluta flotans.
Í skýrslunni er bent á að hægt er að endurnýta veiðarfæri sem finnast og hluti úr veiðarfærum sem eru orðin úrelt. En það er almennt séð kostnaðarsamt að endurvinna veiðarfæri því það þarf að leysa þau í sundur og gera klár, auk þess sem sumar vörur er ekki hægt að endurvinna.
Aðgerðir sem lagðar eru til
Nauðsynlegt er að auka vitneskju á Norðurlöndum öllum um afleiðingar veiðarfæra sem tapast hafa eða verið skilin eftir. Þetta á einkum við um skort á starfshefðum sem leiðir til þess að smærri hlutir úr veiðarfærum berast í hafið.
Almenn þörf fyrir að fara yfir það að hvaða marki reglusetning í hverju landi fyrir sig skilar tilætluðum árangri hvað þetta varðar. Þörf getur verið fyrir nýjar aðgerðir, svo sem að hafa flóttaleiðir úr fiskigildrum og að banna fiskveiðar við skipsflök.
Aðgerðir á hafi úti
Nauðsynlegt er að gera stöðu veiðarfæranna „sýnilegri“ til að draga úr hættu á að skorið sé á yfirborðshluta og að veiðarfæri rekist saman. Mælt er með lausnum til að tilkynna eða láta vita þannig að veiðarfærin verði stafrænt sýnileg öðrum sjófarendum.
Séu öll veiðarfæri merkt hvetur það til aukinnar ábyrgðar á því að tilkynna þegar þau tapast. Þannig aukast einnig líkur á því að hægt sé að skila þeim til eigandans og þannig að endurnýta þau.
Skýrsluhöfundar segja greinilegt að auka þarf hæfni tómstundaveiðimanna við notkun á lagnetum og fiskigildrum. Aukin hæfni dregur úr hættu á því að veiðarfæri tapist. Hvað atvinnufiskimenn varðar snýst aukin hæfni einkum um bættar starfshefðir og viðhorf gagnvart efnisleifum úr veiðarfærum.
„Það þarf augljóslega að gera kröfu um tilkynningar um staðsetningu týndra veiðarfæra með einföldu og sérhönnuðu verkfæri fyrir fiskimenn,“ segir í aðgerðakafla skýrslunnar. „Ekki verður betur séð en að þetta sé hagkvæm leið til að afla nauðsynlegra upplýsinga og þekkingar.“
Veiðarfæri á hafsbotni geta stefnt lífi í sjó í hættu og eru mengandi í hafinu með löngum niðurbrotstíma. Mælt er með því að fjarlægja þau af hafsbotni. Það eru til hagnýtar aðferðir til hreinsunar en það þarf að aðlaga þær að aðstæðum í hverju landi fyrir sig ásamt innleiðslu kerfa um tilkynningar um staðsetningu týndra veiðarfæra.
Aðgerðir í landi
Mælt er með því að skipuleggja lausnir sem gera mönnum kleift að skila týndum veiðarfærum sem hafa fundist og veiðarfærum til förgunar á fiskihöfnum. Hvetja þarf til lausna sem stuðla að endurnotkun og endurnýtingu þannig að brennsla og sorpeyðing komi síðast til álita.
Mikil þörf er fyrir aukna áherslu á efnisval í veiðarfærum. Það er hægt að taka fullt tillit til skilvirkni við veiðar með því að móta lausnir sem líka geta stuðlað að minna magni plasts í veiðarfærum.