Staðfest smit af kórónuveirunni eru nú orðin 1.086 hér á landi. Í gær voru þau 1.020 og hefur þeim því fjölgað um 66 á einum sólarhring. Í dag eru 9.236 einstaklingar í sóttkví en í gær var fjöldinn 9.541.
Tæplega 4.430 manns hafa lokið sóttkví.
Nú liggja 25 sjúklingar á sjúkrahúsi vegna COVID-19 sjúkdómsins, þar af níu á gjörgæslu, samkvæmt því sem fram kemur á síðunni Covid.is. Þar kemur einnig fram að 139 hafi náð sér af sjúkdómnum til þessa.
Í dag hafa 16.484 sýni verið tekin frá upphafi faraldursins. Síðasta sólarhringinn voru 490 sýni tekin hjá Íslenskri erfðagreiningu og 510 hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Fimm ný smit greindust hjá ÍE.
Hlutfall smitaðra sem greinst hafa á meðan þeir eru í sóttkví er nú 51%. Þetta hefur sóttvarnalæknir sagt sýna nauðsyn sóttkvíar til að hemja útbreiðslu faraldursins.
Flestir þeirra sem hafa greinst með veiruna eru á aldrinum 40-49 ára. Sex einstaklingar á tíræðisaldri hafa greinst og 25 börn yngri en tíu ára.
Þess skal getið að mismunur getur verið á tölum um sýnatökur annars vegar og fjölda smita hins vegar sem birtar eru á hverjum degi á Covid.is. Skýringin er sú að birting upplýsinga um smit taka mið af því hvenær sýnið var tekið en ekki hvenær það var greint.
Lögreglan í Vestmannaeyjum greindi frá því á Facebook-síðu sinni í gær að staðfest smit í Eyjum væru orðin 57. Þar eru 596 manns í sóttkví. 173 Vestmanneyingar hafa lokið sóttkví.
Spálíkan uppfært fljótlega
Helstu niðurstöður spálíkans vísindamanna við Háskóla Íslands, með gögnum til og með 24. mars, eru þær að á meðan faraldurinn gangi yfir muni rúmlega 1.500 manns á Íslandi greinast með COVID-19 en talan gæti náð nær 2.300 manns samkvæmt svartsýnustu spá.
Þá er gert ráð fyrir að faraldurinn nái hámarki fyrstu vikuna í apríl.
Spáin hefur ekki verið uppfærð í nokkra daga en von er á nýrri spá fljótlega.