„Við erum öll að læra og ég vona að þetta sé á réttri leið hjá okkur,“ sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á upplýsingafundi almannavarna í dag. Hann segir að ekki hafi enn þurft að beita sektum vegna brota á samkomubanni og reglum um sóttkví.
Víðir ítrekaði þó enn og aftur að lögreglan myndi ekki hika við að beita sektum ef á þyrfti að halda.
Samkomubann verður við lýði um páskana. Óvíst er enn hvenær aðgerðunum verður aflétt en sóttvarnalæknir segir að það verði að gera hægt og varlega svo að annar faraldur blossi ekki upp.
„Varðandi páskana,“ sagði Víðir í lok fundarins í dag, „við höfum sagt að fólk hugi að því að ferðast innanhúss, eins og einhver sagði. En við hvetjum fólk að minnsta kosti til að fara ekki í löng ferðalög eða mikið um landið, halda sig heima um páskana.“
Víðir var með annað heilræði í tengslum við páskana til landsmanna. Hann benti á að verslanir yrðu opnar suma dagana en þó með þeim takmörkunum sem væru í gildi. „Við viljum hvetja fólk til að vera tímanlega í páskainnkaupunum svo ekki myndist örtröð við verslanirnar. Og líka að þeir sem fara í búð yfir höfuð kaupi inn fyrir nokka daga í einu.“
Hér getur þú lesið þig til eða rifjað upp reglur sem gilda í samkomubanni.