Viðskiptaráð Íslands fordæmir misnotkun á hlutabótaúrræðum stjórnvalda sem vinnur gegn markmiðum þeirra og brýtur gegn öllum viðteknum venjum góðra stjórnarhátta. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Viðskiptaráði í dag.
Fram hefur komið hjá stéttarfélögum að atvinnurekendur hafi lækkað starfshlutfall starfsmanna en krafist vinnuframlags umfram hið nýja hlutfall. Þá kom fram hjá Eflingu í gær að borist hefðu ábendingar um að starfsfólk sem fyrirtæki hefur sett á hlutabætur væri enn látið vinna fullt starf. Fyrirtæki hefðu þannig fært launakostnað yfir á ríkið en þegið vinnu starfsfólksins. Um væri að ræða grófa misnotkun á almannafé sem gengi þvert á markmið hlutabótaleiðarinnar.
Í tilkynningu Viðskiptaráðs segir að stjórnvöld, atvinnulífið og landsmenn allir hafi tekið höndum saman til að standa vörð um störf við óviðjafnanlegar aðstæður. Í þeirri viðleitni hafi stjórnvöld lagt fram mikilvægar og tímabundnar ráðstafanir í formi hlutaatvinnuleysisbóta.
„Viðskiptaráð Íslands fordæmir misnotkun á slíkum úrræðum sem vinnur gegn markmiðum þeirra og brýtur gegn öllum viðteknum venjum góðra stjórnarhátta. Stuðli atvinnurekandi að slíkum bótasvikum getur það varðað við hegningarlög. Atvinnurekendur, stéttarfélög, launafólk og aðrir sem búa yfir upplýsingum um bótasvik eru hvattir til að tilkynna það til Vinnumálastofnunar,“ segir í tilkynningunni.
Sumir ætli að notfæra sér þennan harmleik
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir á vefsíðu stéttarfélagsins að sumir atvinnurekendur ætli greinilega að notfæra sér þann harmleik sem þessi faraldur er til að ríkisvæða kostnaðinn en halda tekjunum. „Þetta er geysilega ósvífið gagnvart atvinnuleysistryggingarsjóði, og kaldranaleg eigingirni á hættutímum.“
Hún bendir enn fremur á að oft hafi spjótum verið beint að fátæku fólki sem sakað sé um að svindla á bótakerfum. „Nú sjáum við dæmi um að vellauðug fyrirtæki, sem hafa greitt sér milljónir og milljarða í arð, eru að nýta sér neyðarúrræði ríkisins. Stjórnvöld þurfa að koma í veg fyrir svik þegar í stað,“ segir hún.