Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, hefur sagt af sér embætti sem 1. varaforseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ). Þetta staðfestir Drífa Snædal, forseti ASÍ, í samtali við Kjarnann.
Miðstjórn ASÍ fundar núna en hvorki Vilhjálmur né Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, verða viðstaddir á þeim fundi.
Vilhjálmur birti stöðuuppfærslu á Facebook í gær þar sem hann sagði þá stöðu sem væri að teiknast upp á íslenskum vinnumarkaði vera vægast sagt hrollvekjandi enda væri alltof stórhluti tannhjóla atvinnulífsins við það að stöðvast. „Þessi staða á vinnumarkaðnum er orðin nú þegar mun verri en hún varð í hruninu og það er ljóst að við verðum að finna leiðir til að verja störfin, verja kaupmáttinn og verja heimilin. Við verðum að finna leiðir til að verja lífsviðurværi og síðast en ekki síst atvinnuöryggi launafólks eins og kostur er á meðan þessi faraldur gengur yfir.“
Vilhjálmur sagði að það lægi fyrir að fjölmargir atvinnurekendur hefðu óskað eftir við stéttarfélögin að við þessar fordæmalausu aðstæður sem væru við lýði með beiðni um að fresta þeim launahækkunum sem eiga að koma til framkvæmda í dag, 1. apríl. „Ég hef alltaf sagt að það komi ekki til greina, enda þarf launafólk á þessum launahækkunum á að halda. Hins vegar er ég tilbúinn að fara aðra leið vegna þess skelfingar ástands sem ríkir á vinnumarkaðnum vegna faraldursins. Sú leið byggist á því að í stað þess að fresta launahækkuninni þá verði mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð lækkað úr 11,5% í 8% tímabundið meðan faraldurinn gengur yfir. En markmiðið með þessari leið væri að verja atvinnuöryggi launafólks og tryggja um leið að launahækkanir skili sér til launafólks.“
Í formlega erindinu sem sent var á mánudag segir meðal annars að heimsfaraldurinn COVID-19 hafi lamað íslenskt samfélag og atvinnulíf. „Stór hluti atvinnustarfsemi um heim allan hefur stöðvast. Tekjugrundvöllur fjölmargra íslenskra fyrirtækja hefur algjörlega brostið. Stjórnvöld grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot fyrirtækja og fordæmalausa fjölgun atvinnulausra.“
Í bréfinu, sem Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA og Eyjólfur Árni Rafnsson formaður SA skrifa undir, var óskað eftir því að mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði starfsmanna yrði tímabundið lækkað úr 11,5 í átta prósent, eða um 3,5 prósentustig. Það er sama leið og Vilhjálmur lýsti sig fylgjandi að fara. Lækkunin átti að gilda í sex mánuði en samkomulagið myndi framlengjast í þrjá mánuði ósjálfkrafa ef því yrði ekki sagt upp.
Í kjölfar þess að ASÍ hafnaði leiðinni sagði Vilhjálmur af sér embætti 1. varaforseta.