Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir að hann lýsi undrun sinni á orðum Drífu Snædal, forseta Alþýðusambands Íslands (ASÍ), sem sagði í viðtali á RÚV í morgun ekki væri hægt að lækka mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði starfsmanna tímabundið vegna þess að það væri „of alvarleg aðgerð til að hægt sé að grípa til hennar.“
Vilhjálmur segir að Drífa hafi á fundi síðastliðinn föstudag lagt fram tillögu um að fresta öllum launahækkunum á íslenskum vinnumarkaði tímabundið. „Það vekur því forundrun mína að telja það í lagi að leggja fram tillögu um að fresta og taka allar launahækkanir af launafólki á öllum íslenskum vinnumarkaði, en segja núna nokkrum dögum síðar að það sé of „alvarlega aðgerð“ að lækka mótframlag atvinnurekenda tímabundið í lífeyrissjóð.[...]Mér finnst það þyngra en tárum taki að hafa lagt fram tillögu um taka tímabundið launahækkanir af launafólki í stað þess að fara þessa lífeyrisleið sem skilar eins og áður hefur komið fram sama ávinningi. En það virðist vera sem sumir í verkalýðshreyfingunni líti á lífeyrissjóðina sem „heilaga“ sem aldrei megi gagnrýna né snerta.“
Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu Vilhjálms á Facebook. Hann ákvað fyrr í dag að segja af sér embætti varaforseta ASÍ til að mótmæla ákvörðun sambandsins um að hafna því að mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð starfsmanna þeirra yrði lækkað um 3,5 prósentustig í sex mánuði hið minnsta.
Aðalmarkmiðið með þeirri aðgerð væri að verja störf og ef hún myndi leiða til þess að okkur tækist að verja 200, 400, 500 eða jafnvel þúsundir starfa þá væri hún skynsamleg að mati Vilhjálms. „Það er ábyrgðarlaust að gera ekki neitt enda er vinnumarkaðurinn að breytast í blóðugan vígvöll og það bitnar eins og alltaf á almennu launafólki eins og tölur Vinnumálastofnunar staðfesta.“
Vilhjálmur segist hafa skynjað á samtölum sínum við stjórnvöld á undanförnum dögum að það væri fullur vilji þeirra til að styðja við, ef verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur næðu saman, með nokkrum „aðgerðum eins og að koma hlutdeildarlánunum í gegn sem Covid mál sem og að verja heimilin fyrir hugsanlegu verðbólguskoti.“
Verjum störfin, verjum kaupmáttinn og verjum heimilin Í morgun var viðtal við forseta ASÍ á RUV þar sem hún segir að...
Posted by Vilhjálmur Birgisson on Wednesday, April 1, 2020