„Við erum auðvitað ánægð með að hópurinn skuli fá eitthvað en vonsvikin að upphæðin varð ekki meiri.“ Þetta segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins (ÖBÍ), í svari við fyrirspurn Kjarnans. Örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar, sem eiga rétt á orlofsuppbót á árinu 2020, fá 20 þúsund króna eingreiðslu til viðbótar vegna þeirra áhrifa sem COVID-19 faraldurinn hefur haft.
Í svari Þuríðar Hörpu kemur fram að ÖBÍ hafi gert athugasemd við fjáraukalög ríkisstjórnarinnar – þar sem ekki hafi verið minnst á örorkulífeyrisþega. „Við sendum inn umsögn þar sem gerðar voru tillögur til úrbóta fyrir hópinn. Við vorum í framhaldi beðin um að koma með tillögur sem fljótt væri hægt að afgreiða og sem ekki krefðust þess að breyta lögum.“
ÖBÍ sendi inn sex aðaltillögur. Samkvæmt Þuríði Hörpu var þar á meðal þessi eingreiðsla – orlofsuppbót til öryrkja að upphæð 100 þúsund krónur. Þá lögðu þau til að eingreiðslan yrði að vera skatta- og skerðingalaus þar sem annars hefði hún áhrif á sérstakan húsnæðisstuðning, húsaleigubætur og jafnvel örorkulífeyri.
Fólk hefur minni möguleika á að nálgast mat og lyf
„Við bentum á að nú þegar veikt og fatlað fólk hefur einangrað sig vegna undirliggjandi sjúkdóma, kemur í ljós að fólk hefur minni möguleika á að nálgast mat og lyf.
Hjálparstofnanir eru eins og önnur þjónustuúrræði að mestu lokaðar, en flestar reyna að aðstoða fólk í gegnum síma og netfang. Það kemur mjög fram núna hvað margt fólk reiðir sig alfarið á að fá mataraðstoð,“ segir í svari Þuríðar Hörpu.
Kostnaður ríkissjóðs vegna aðgerðarinnar áætlaður um 400 milljónir
Alþingi samþykkti í gær tillögu um að örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar, sem eiga rétt á orlofsuppbót á árinu 2020, fengju 20.000 króna eingreiðslu til viðbótar vegna þeirra áhifa sem COVID-19 faraldurinn hefur haft. Jafnframt var gerð breyting á lögum um almannatryggingar til að þessi greiðsla gæti farið fram. Greiðslan kemur til framkvæmda þann 1. júní næstkomandi.
Greiðslan kemur til viðbótar við þá orlofsuppbót sem örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar eiga rétt á í ár og telst ekki til tekna þeirra. Hún mun þar af leiðandi ekki skerða aðrar greiðslur til hópsins, að því er fram kemur í tilkynningu á vegum félagsmálaráðuneytisins.
Miðað er við að um það bil 20.000 örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar uppfylli skilyrðið um rétt á orlofsuppbót á árinu 2020 og er kostnaður ríkissjóðs vegna aðgerðarinnar áætlaður um 400 milljónir króna.
Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra, sagði við tilefnið að áhrifanna af COVID-19 faraldrinum gætti víða í okkar samfélagi og „við höfum frá upphafi lagt áherslu á það að styðja við viðkvæma hópa á þessum tímum. Á nokkrum vikum hefur daglegt líf okkar allra raskast mikið og aukið álag á öllum sviðum samfélagsins, ekki síst þá hópa sem minna mega sín. Það er því einkar ánægjulegt að þessi tillaga hafi verið samþykkt á Alþingi. Saman förum við í gegnum skaflinn.”