Staðfest smit af kórónuveirunni eru orðin 1.319 en í gær voru þau 1.220 og hefur þeim því fjölgað um 99 á einum sólarhring. Þetta kemur fram á covid.is í dag.
Í dag eru 7.166 einstaklingar í sóttkví og heldur þeim áfram að fækka. Tæplega 9.000 manns hafa nú lokið sóttkví. Nú liggur 41 sjúklingur á sjúkrahúsi vegna COVID-19 sjúkdómsins, eins og í gær, þar af tólf á gjörgæslu. Ellefu eru á gjörgæslu í Reykjavík og einn á Akureyri.
Fram kom á vef Landspítalans í dag að á síðasta sólarhring hefðu tveir sjúklingar látist á spítalanum vegna Covid-19. Fjölskyldum hinna látnu er vottuð samúð.
Fjórir hafa nú látist vegna sjúkdómsins sem nýja kórónuveiran veldur hér á landi. Ástralskur ferðamaður lést á heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík um miðjan mars og íslensk kona á Landspítalanum í síðustu viku.
Þá hafa alls 270 náð sér af sjúkdómnum til þessa.
Alls hafa 20.930 sýni verið greind hér á landi frá upphafi faraldursins. Í gærdag voru 817 sýni greind hjá Íslenskri erfðagreiningu og 597 hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans.
Spá því að 1.700 manns á Íslandi muni greinast
Í spálíkani vísindamanna við Háskóla Íslands sem síðast var uppfært á mánudaginn, kemur fram að á meðan faraldurinn gangi yfir muni rúmlega 1.700 manns á Íslandi greinast með COVID-19 sjúkdóminn, en talan gæti náð nær 2.800 manns samkvæmt svartsýnni spá.
Þá er í nýjustu spánni gert ráð fyrir að fjöldi greindra einstaklinga með virkan sjúkdóm nái hámarki í fyrstu viku þessa mánaðar og verði sennilega um 1.200 manns, en gæti viku seinna náð 1.800 manns samkvæmt svartsýnni spá.