Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði á daglegum blaðamannafundi í dag að hann hefði fengið mikið af ábendingum síðasta sólarhringinn frá starfsfólki í verslunum sem kvarti undan framkomu viðskiptavinanna.
„Ef þið eruð pirruð þarna úti, ekki láta það bitna á starfsfólki verslana. Það eru ekki þau sem setja reglurnar. Þau eru að framfylgja því sem við segjum. Látið það þá frekar bitna á okkur, við getum reynt að útskýra það ef fólk er ekki að skilja það. Ekki láta það bitna á saklausi starfsfólki sem er bara að reyna að gera sitt besta til þess að sinna okkar þörfum,“ sagði Víðir.
Hann ítrekaði jafnframt að fólk ætti að forðast það að ferðast innanlands um páskana, og reyna að versla tímanlega til þess að lenda ekki í örtröð.
„Og að lokum þetta sem við erum alltaf að segja: Ef þér líður eitthvað illa vertu heima. Ef þú ert með einhvers konar einkenni; hálsbólgu eða eitthvað nefrennsli, vertu heima. Verum örugg á þessu, talaðu við lækninn þinn og athugaðu hvort þú megir fara út eða ekki. Ekki fara út – ekki íslenska víkinginn á þetta – með kvefið, hálsbólguna og beinverkina og ætla að mæta í vinnuna. Ekki gera það,“ sagði Víðir.