Neyðaráætlun hefur verið virkjuð í Stokkhólmi vegna faraldurs COVID-19 sjúkdómsins. Í áætluninni er mest áhersla lögð á að manna gjörgæsludeildir sjúkrahúsa. Vinnuskylda er nú 48 klukkustundir á viku. Starfsmenn fá greitt álag sem getur hækkar laun þeirra meira en tvöfalt á meðan neyðaráætlunin er í gildi.
Borgaryfirvöld tilkynntu í morgun um virkjun áætlunarinnar. Samkvæmt henni má kalla til heilbrigðisstarfsfólk af öðrum sjúkrahúsum til starfa þar sem álagið er mest. Þó ber þess að gæta að starfsmenn fái hvíld.
„Neyðaráætlunin er ekki lausn til langs tíma hvað varðar skort á starfsmönnum,“ hefur Aftonbladet eftir Joakim Larsson, stjórnarformanni samstarfsnefnd sveitarfélaga í Svíþjóð. „Það verður að tryggja hvíld og endurheimt starfsmanna til lengri tíma litið. Stjórnendur verða þess vegna að finna aðrar lausnir til að bæta mönnun.“
Svíar hafa ekki gripið til sambærilegra aðgerða í faraldrinum og flestar þjóðir Evrópu. Þeir hafa ekki lokað veitingahúsum, börum eða öðrum stöðum þar sem fólk kemur saman á. Stjórnvöld hafa haft þá yfirlýstu stefnu að leyfa veirunni að dreifast hægt um samfélagið án þess að drekkja heilbrigðiskerfinu og án þess að grípa til róttækra aðgerða. Þau hafa hins vegar forðast það að nota orðið „hjarðónæmi“ í þessu sambandi.
Niðurstaðan er þessi: 282 hafa dáið úr COVID-19, fimm sinnum fleiri en í nágrannaríkinu Noregi. Í Svíþjóð var ekki tekin stefna um að skima mikið fyrir veirunni, líkt og á Íslandi, þó að síðustu daga hafi fleiri sýni verið tekin. Staðfest smit eru nú tæplega 5.500. Yfir 360 manns liggja á gjörgæslu með COVID-19.
Faraldsfræðingurinn Anders Tegnell hefur leitt viðbrögð sænskra stjórnvalda við faraldrinum. Þrátt fyrir að margir hafi gagnrýnt þá stefnu sem hann hefur talað fyrir hefur hann haldið áfram sínu striki. Hann hefur m.a. verið spurður hvort ekki sé tímabært að afkvía Stokkhólm, þar sem tilfellin eru langflest.
„Já, það hefur orðið aukning en ekki svo stórkostleg enn sem komið er,“ sagði hann í byrjun viku. „Við erum að fara á það stig faraldursins þar sem við munum sjá miklu fleiri tilfelli næstu vikurnar, fleira fólk á gjörgæslu, en það er eins og í hverju öðru landi – það hefur hvergi verið hægt að hægja á útbreiðslunni að einhverju marki.“
Forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven, hefur sagt Svíum að „haga sér eins og fullorðið fólk“ og hefur varað fólk við því að ýta undir skelfingu og dreifa sögusögnum.
Vísindamenn, m.a. læknar, í Svíþjóð, hafa þó lýst yfir þungum áhyggjum af aðgerðaleysi stjórnvalda. Í síðustu viku skrifuðu 2.000 læknar, kennarar og ýmsir vísindamenn, undir bænaskjal þar sem stjórnvöld voru eindregið hvött til þess að herða aðgerðir til að hægja á útbreiðslunni. „Við erum ekki að taka nógu mörg sýni, við erum ekki að rekja smit, við erum ekki að setja nógu marga í einangrun – við höfum sleppt veirunni lausri,“ hefur Guardian eftir Cecilia Söderberg-Nauclér, sérfræðingi í ónæmisfræðum við Karolinsku-stofnunina. „Stjórnvöld eru að leiða okkur út í hörmungar.“
Á meðan stjórnvöld hafa talað hættuna sem af veirunni staðar niður hafa margir Svíar verið hinir rólegustu, vanir því að hlusta á lýðræðislega kosna fulltrúa og embættismenn stjórnkerfisins sem hafa ávallt notið mikils traust almennings. Fólk tekur mark á yfirvöldum og trúir því að þau viti betur, geri það sem almenningi er fyrir bestu.
Faraldsfræðingurinn Tegnell sagði nýverið um harðar aðgerðir nágrannalandanna: „Vandamálið við þessa nálgun er að þú þreytir allt kerfið. Það er ekki hægt að loka öllu mánuðum saman – það er ógerlegt.“
Ónæmissérfræðingurinn Söderberg-Nauclér er á öðru máli. „Ríkisstjórnin heldur að hún geti ekki stöðvað þetta svo að hún hefur ákveðið að láta fólk deyja. Hún vill ekki hlusta á staðreyndir vísindamanna. [...] Við erum að sjá merki um hraðari vöxt en jafnvel Ítalía gerði. Gjörgæslupláss í Stokkhólmi verða bráðum full og þeir skilja ekki að þá verður of seint að bregðast við.“
Ráðgjafi ríkisstjórnarinnar hefur gefið lítið fyrir slíkt tal. „Það eru engar sannanir fyrir því að á þessu stigi skipti [harðari aðgerðir] máli. Það er mun áhrifaríkara að setja á staðbundnar takmarkanir og það í eins stuttan tíma og mögulegt er.“
Launalækkun vegna niðurfellingar á álagsgreiðslu
Hér á Íslandi var snemma gripið til aðgerða sem miðuðu að því að finna smitaða, rekja smitin og einangra fólk eða setja í sóttkví. Hér hefur ekki orðið veldisvöxtur í fjölda smitaðra líkt og í Svíþjóð. Hins vegar hafa svartsýnu spár ræst hvað varðar fjölda alvarlegra veikra sem þurfa á gjörgæsluhjúkrun að halda.
Íslenskir hjúkrunarfræðingar, sem hafa staðið í eldlínu faraldursins síðustu vikur og starfað undir gríðarlegu álagi, vöknuðu upp við vondan draum um mánaðamótin er sérstakrar álagsgreiðslu til þeirra var hætt. Eru dæmi um að laun þeirra hafi lækkað um 40 þúsund við þetta.
Engar sérstakar greiðslur vegna álags á Landspítalanum í faraldrinum hafa verið tilkynntar.